151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2022–2025, til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á haustþingi 2021.“

Með tillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra undirbúi og leggi fram aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu. Ráðherra vinni áætlunina í nánu samráði við sveitarfélög, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Kennarasamband Íslands, hagsmunasamtök námsmanna, Landssamtökin Geðhjálp, Landssamtökin Þroskahjálp og aðila vinnumarkaðarins.

Lausnin á vanda íslenskra drengja í skólakerfinu er ekki einföld. Mikilvægt er að samráð sé haft við alla sem koma að málinu, ekki bara þá sem áður hafa verið nefndir, og það sé sem víðtækast og byggt á gögnum og nýjustu þekkingu. Vandi drengja í skólakerfinu er ein stærsta áskorunin sem það stendur frammi fyrir. Drengjum gengur verr í skóla en stúlkum, brottfall þeirra er meira og hátt hlutfall drengja mælist með lélega kunnáttu í lestri.

Alþjóðlega könnunin PISA, sem lögð var fyrir 15 ára nemendur vorið 2018, sýnir fram á að hlutfall nemenda sem ekki ná grunnhæfni í lesskilningi hækkar úr 22% í 26% milli kannana. Hjá drengjum hækkar hlutfallið úr 29% í 34%.

Mun lægra hlutfall karla en kvenna hefur lokið háskólaprófi undanfarin ár. Drengir virðast því ekki jafn vel undirbúnir og stúlkur fyrir hefðbundið framhaldsskólanám að loknum grunnskóla. Það sést á tölum um brottfall úr framhaldsskólum og útskriftum úr framhaldsskólum og tölfræðilegum upplýsingum frá háskólum landsins. Árið 1975 var kynjahlutfall þeirra sem luku stúdentsprófi jafnt. Árið 2018 var hlutfallið hins vegar 60% konur og 40% karlar. Þegar tölur um þá sem ljúka námi í háskóla eru skoðaðar eykst munurinn. Árið 1973 voru 76% þeirra sem luku háskólaprófi karlmenn. Árið 1985 var hlutfall kynjanna jafnt, sem var gríðarlega jákvæð þróun. Í dag er staðan hins vegar sú að 34% þeirra sem ljúka háskólaprófi eru karlmenn. Það er ljóst að einhvers staðar er pottur brotinn og nauðsynlegt er að ráðast í aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í skólakerfinu og jafna þennan mun.

Líðan nemenda skiptir máli í þessu samhengi. Skýrsla sem fyrirtækið Rannsóknir og greining gerði fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2018 sýndi að börnum í 8.–10. bekk grunnskóla líður verr nú en fyrir 20 árum. Stúlkum líður almennt verr en drengjum en þær standa sig samt betur í námi. Orsakaþættir eru margir, allt frá minni svefni yfir í neyslu vímuefna, auk þess sem tilkoma samfélagsmiðla meðal barna og ungmenna, sem þekktist ekki fyrr en eftir 2012, á einnig þátt í verri líðan. Mikilvægt er að í undirbúningi aðgerðaáætlunarinnar séu þessir þættir skoðaðir vel, rýnt verði hvað valdi versnandi líðan nemenda og að aðgerðaáætlunin taki á því. Verri líðan stúlkna er sérstakt áhyggjuefni sem taka verður á og er skorað á yfirvöld menntamála og heilbrigðismála að hefja strax skoðun á þeirri stöðu og er það einmitt líka gert í þessari þingsályktunartillögu.

Herra forseti. Að lokum vil ég benda á að ójafnræði þegar kemur að menntun mun leiða til samfélagslegra vandamála síðar meir. Ef við horfum á að svona mikið ójafnvægi myndist milli kynja þegar kemur að menntun mun það leiða til félagslegra vandamála seinna meir. Við þurfum að huga að þessu og skoða hvers vegna drengir finna sig ekki í skólakerfinu. Hvað er það sem veldur? Frá því að þessi þingsályktunartillaga var kynnt hefur heilmikil umræða verið í samfélaginu um stöðu drengja í skólakerfinu og m.a. verið bent á að drengir fái mun meiri athygli og mun meiri tíma kennara og stuðningsfulltrúa í skólakerfinu og fái mun oftar stuðning, en að sú athygli sem drengjum sé veitt í skólakerfinu sé í yfirgnæfandi mæli neikvæð athygli, að verið sé að skamma þá eða benda þeim á að þeir standi sig ekki. Nú er sú sem hér stendur enginn sérfræðingur í þessu, en mér þætti gaman að vita, og tel mikilvægt að það verði skoðað í þessari aðgerðaáætlun, hvort þessi neikvæðu skilaboð sem annað kynið fær umtalsvert umfram hitt í skólakerfinu geti á einhvern hátt orsakað það brottfall sem þarna er og orsakað það að drengir finni sig ekki í skólakerfinu. Ef maður fær frá unga aldri, frá sex ára bekk, þau skilaboð frá því samfélagi sem maður á að vera í í tíu ár, það er skólaskylda í tíu ár og maður er þar mikinn hluta af vökutíma sínum, að maður standi sig ekki, að maður sé ekki duglegur, að maður eigi að gera eitthvað öðruvísi og vera stilltur og fara frá, þá getur það haft langvarandi áhrif. Það myndast vantraust til þessa kerfis og vantraust um að maður eigir heima þarna þar sem maður passar augljóslega illa inn. Ef þessi neikvæðu skilaboð eru meginþorri þeirra skilaboða sem maður fær kann það mögulega að lita upplifun manns til langrar framtíðar.

Herra forseti. Ályktunin er sakleysisleg, hún er einfaldlega sú að fela mennta- og menningarmálaráðherra að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu og ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á hausti komanda. Að þessu sögðu legg ég til að þingsályktunartillagan verði send hv. allsherjar- og menntamálanefnd til umfjöllunar.