151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að femínismi hafi leitt til mestu framfara sem heimurinn hefur orðið áskynja á undanförnum áratugum og síðustu öldina, í átt að jafnrétti, í átt að manneskjulegra samfélagi, í átt að velferðarkerfi, í átt að jafnræði o.s.frv. Ég mun því aldrei láta eins og það hafi á einhvern hátt haft hér neikvæð áhrif. Hins vegar eru margar kenningar uppi um hvað veldur þessu. Einhverjir segja að launamunur kynjanna á Íslandi valdi þessu, að við séum með svo rótgróinn launamun, eins og fram kom í fjölmiðlum um daginn, að á ákveðnum stöðum á landsbyggðinni séu karlar með grunnskólamenntun jafnvel með hærri laun en konur með háskólapróf. Það er auðvitað mjög sérstök staða að maður þurfi ekki að mennta sig til að eiga möguleika á hærri launum, heldur geti maður labbað inn í hálaunastörf og fengið mjög góð laun án þess að þurfa að mennta sig nokkuð til þess. Ég er hins vegar ekki viss um að það sé það sem valdi því að drengir flosna upp úr menntaskóla þetta snemma. Ég hef lesið í OECD-skýrslum og heyrt á þeirri umræðu sem þar á sér stað, að það kunni að vera að í þeirri aðferð sem við beitum núna við að kenna, skorti endurgjöf, að strákar þurfi frekar á þessari stöðugu endurgjöf að halda en stúlkur. Ég veit ekki hvort það er rétt. En þetta er klárlega nokkuð sem við verðum að takast á við af því að jafnréttið (Forseti hringir.) mun alltaf leiða okkur til farsælli framtíðar.