151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir hans ræðu. Ég ætla ekkert sérstaklega að þakka honum fyrir að kalla mig rugludall og bullara því að það finnst mér ég bara alls ekki vera. Ég var heldur ekki að ræða það hvernig Ísteka vinnur þetta hormón eða draga það í efa að þeir séu snillingar og tæknilega fullkomnir í því starfi sem þeir vinna. Og það kemur mér heldur ekki á óvart og hefði orðið meira hissa ef talsmaður Miðflokksins hefði ekki mætt hér, Miðflokkurinn sem er með sérstaka áherslu á þetta í landbúnaðartillögu sinni í 20 og eitthvað liðum, þar sem í lið nr. 18 er sérstaklega tekið fram að styrkja eigi blóðmerahald.

Auðvitað er maður ekkert hissa á því þegar það er greinileg hagsmunagæsla hér á ferð. Auðvitað er maður ekki hissa á því að verið sé að verja Ísteka, þeir velta 1,5 milljörðum á ári við þessa iðju sína. En að taka hér til blóðtöku á fólki — hv. þingmaður viðurkennir það, þó að það sé talið algjörlega óverjandi vísindalega að taka meira en 10% á svona stuttum tíma, með svona stuttu millibili, úr fylfullri hryssu, og kemur með þær upplýsingar að við tökum 14–17%, þó svo að hann segi að það sé að meðaltali fimm sinnum á sumri. Ég segi: Það er rangt. Það væri alger undantekning frá reglunni ef það er ekki einu sinni í viku, þær vikur sem merin framleiðir þetta hormón.

Ég ætla því að beina því til hv. þingmanns, með fullri virðingu, og biðja hann vinsamlega um að kalla mig ekki rugludall og bullara með mína sannfæringu gagnvart því sem ég er að gera hér í mínu starfi. Ég skal virða hans skoðanir. Ég hef aldrei nokkurn tíma, hvorki í ræðu minni á undan né nokkurn tíma, talað um að bændur væru að pynda dýr. Ég veit ekki hvar í ósköpunum hv. þingmaður fær þá hugmynd og hvernig hann vogar sér að segja það. Ég hef aldrei nokkurn tíma sagt það, eins og hann sagði orðrétt í ræðu sinni áðan, (Forseti hringir.) að ég hefði verið að tala um að bændur væru vondir og væru að pynda dýr. Þetta er ósatt, hv. þingmaður. Það hef ég aldrei sagt. (Forseti hringir.) Ég ber 100% virðingu fyrir bændum, jafnvel hv. þingmanni ef hann er sjálfur bóndi.