151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir spurninguna. Ég verð að segja að upplýsingarnar um að þetta sé eingöngu selt erlendis gerir mig bara enn þá ákveðnari í því að vera á móti þessu og það ætti líka að hvetja alla bændur til að vera á móti því. Ég veit ekki annað en að bændur séu rosalega á móti því að verið sé að flytja inn erlent svínakjöt í samkeppni við íslenskt eða kjöt yfir höfuð. En þarna eru þeir að framleiða hormón sem sent er til Evrópu til að framleiða meira svínakjöt, sem er sent hvert? Jafnvel til Íslands. Er það betra? Og ég spyr mig líka, og hv. þingmaður getur kannski svarað mér: Hvers vegna í ósköpunum er þetta hormón bannað á Íslandi? Er það af siðferðislegum ástæðum sem það er bannað eða hver er ástæðan? Við hljótum að spyrja okkur að því. Við erum að dæla blóði úr hryssum með folaldi til að framleiða hormón sem bannað er að selja á Íslandi til að selja það erlendis til þess að auka kjötframleiðslu erlendis. Á sama tíma eru bændur að tala um að erlend kjötframleiðsla ógni kjötframleiðslu á Íslandi og vilja ekki innflutning á kjöti. Við erum komin hér í algera hringavitleysu.

Virðulegi forseti. Ég er gjörsamlega hættur að botna í þessu. Þetta er í eitt af þeim fáu skiptum sem ég er algerlega orðlaus yfir því að við séum komin allan þennan hring. Þetta gerir mig enn þá sannfærðari og enn þá staðfastari í því að við þurfum að samþykkja þetta frumvarp og hætta þessu. Þetta er orðin alger hringavitleysa.