151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

544. mál
[19:43]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem felur í sér breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þetta er mál sem þingflokkur Viðreisnar flytur og ég er framsögumaður fyrir. Með lögum nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var tveimur bráðabirgðaákvæðum bætt við lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í þeim felst að stuðningur við staðfest rannsóknar- og þróunarverkefni nýsköpunarfyrirtækja er aukinn tímabundið. Annars vegar eiga fyrirtæki með staðfest verkefni rétt á sérstökum frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021, þ.e. í ár, og 2022, á næsta ári, og hins vegar er hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022 hækkað.

Með frumvarpi þessu er lagt til að bráðabirgðaákvæðin verði færð varanlega inn í lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það liggur fyrir að þessar ívilnanir, bæði þær sem fyrir voru, því að vissulega voru ívilnanir fyrir um þessi atriði, juku þennan stuðning, og mörg nýsköpunarfyrirtæki hafa náð góðum árangri einmitt fyrir tilstuðlan þessa kerfis.

Óhætt er að segja að hörð alþjóðleg samkeppni ríki um staðsetningu nýsköpunarfyrirtækja og um að skapa umhverfi sem veitir þeim tækifæri til áframhaldandi vaxtar. Nýsköpunarfyrirtæki eru ekki bara eftirsótt á Íslandi heldur um allan heim og alls staðar er keppst við að búa þeim sem hagfelldust skilyrði vegna þess eftir hve miklu er að slægjast í framlagi þessara fyrirtækja til þeirra ríkja þar sem þau eru staðsett. Síðan er það auðvitað þannig, og maður þreytist ekki á að minna á það, að nýsköpun og fjárfestingar sem tengjast nýsköpun eru langtímaverkefni og þess vegna skiptir máli að horft sé til langs tíma þegar stuðningur og ívilnanir eru ákveðnar og þar má Ísland ekki verða eftirbátur annarra.

Þessi stuðningur hefur þann kost að hann er almennur en hann er ekki sértækur. Þetta fyrirkomulag krefst þess líka að fyrirtækin sjálf fjármagni leiðina eða verkefnin í upphafi, en með því að veita þeim þessar ívilnanir fá þau mikilvægt svigrúm til að taka heldur meiri áhættu með fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Það leiðir til þess að til verða vel launuð störf í fyrirtækjunum og þau störf skila auknum skatttekjum. Síðan eflast fyrirtækin og þar með eykst fjölbreytni í atvinnulífinu og þannig skila þau ávinningi til samfélagsins alls í framförum með skattspori sínu og atvinnusköpun.

Herra forseti. Þegar þessi bráðabirgðaákvæði voru samþykkt á sínum tíma tók ég til máls og sagði nokkur orð af því tilefni. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í ræðu mína frá þeim tíma:

„Það sem er ekki síður mikilvægt í þessu öllu er að aðgerðir af þessu tagi verða að vera ótímabundnar. Nýsköpun er nefnilega langhlaup og krefst hugsunar langt fram í tímann. Það gengur ekki að ætla að örva nýsköpun með tímabundnum stuttum aðgerðum. Þó að þær séu ágætar í sjálfu sér þá renna þær ekki stoðum undir það að menn trúi því og treysti að við séum í alvöru að skapa umhverfi fyrir nýsköpun sem er fyrsta flokks. Þess vegna verður að ganga lengra og taka djarfar ákvarðanir í þeim efnum.“

Við meðferð málsins á sínum tíma bárust margar umsagnir og ég held að mér sé óhætt að fullyrða að í það minnsta mjög mörgum þeirra var sérstaklega fjallað um þessa tímabindingu. Má t.d. nefna að í umsögn Samtaka atvinnulífsins er sérstaklega tekið fram og gerð sú athugasemd að þessar ívilnanir eigi að vera ótímabundnar. Í umsögn sem fyrirtækið Nox Medical sendi um þetta er einmitt gerð sú tillaga að þessar breytingar verði ekki tímasettar frekar en þau ákvæði sem fyrir eru í lögunum. Þetta er rökstutt með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir sem lúta að stórum fjárfestingum eru teknar til langs tíma. Uppbygging nýrra starfa á sviði rannsókna og þróunar er jafnframt langtímafjárfesting. Í mörgum tilfellum eru þau störf sem stofnað er til mönnuð einstaklingum sem búa yfir sérfræðiþekkingu á ákveðnum sviðum. Með aðgerð sem þessari skapast tækifæri hjá alþjóðlegum fyrirtækjum til að flytja störf til landsins sem ella væru ekki unnin hér. Með þessari aðgerð væri samkeppnishæfni Íslands um slík störf bætt stórkostlega. Slík störf væru ekki flutt hingað ef slík ákvæði gilda einungis í [skamman tíma].“

Svipuð sjónarmið koma fram í sameiginlegri umsögn frá CCP, Origo og Össuri og Marel — allt eru það fyrirtæki sem hafa náð gríðarlega miklum árangri í nýsköpunar- og þróunarverkefnum og þetta eru fyrirtæki sem við erum öll stolt af, leyfi ég mér að fullyrða. Mig langar að vitna aðeins í umsögnina frá þessum fjórum fyrirtækjum, t.d. þar sem verið er að fjalla um Össur, með leyfi forseta:

„Fjárfesting í þróun á þeim vörum á þessu tímabili hefur numið 2,6 milljörðum kr. en árleg endurgreiðsla vegna þróunarstarfs í heild sinni verið á bilinu 60–120 milljónir kr. Með tilkomu hærri endurgreiðslna vegna þróunarstarfs hefur Össur tækifæri til að tryggja þróunarstarf á Íslandi, sækja enn frekar fram og nýta þann mannauð og þekkingu sem hefur búsetu hér á landi. Með aukinni samkeppni milli landa er mikilvægt að styðja enn frekar við uppbyggingu nýsköpunar á Íslandi.“

Herra forseti. Ég ætla að ljúka þessu með því að vitna hér í iðnþing sem er nýafstaðið. Iðnþing er aðalfundur Samtaka iðnaðarins og þar eru innan borðs mjög mörg nýsköpunarfyrirtæki og aðild að þeim samtökum eiga m.a. Samtök sprotafyrirtækja. Í gögnum frá iðnþingi eru settar fram fjölmargar tillögur sem varða atvinnulífið almennt og efnahagsmál og nokkrar sem varða sérstaklega nýsköpun. Ég tek það skýrt fram að þessi fundur var haldinn eftir að frumvarpið sem hér er til umræðu var lagt fram. Hér segir, með leyfi forseta, um það sem þarf að gera:

„Gera breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, hækkun þaks og endurgreiðsluhlutfall vegna rannsókna og þróunar, ótímabundnar.“

Hér er verið að leggja til það sama og felst í frumvarpinu, þ.e. að gera þessar bráðabirgðaráðstafanir ótímabundnar og það rökstutt með þessum hætti:

„Markmiðið er að skapa fyrirsjáanleika í rekstri fyrirtækja og gera þeim kleift að gera langtímaáætlanir um þróunarverkefni.“

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, þetta skýrir sig sjálft. Frumvarpið er efnislega einfalt. Það er tæknilega einfalt. Ég trúi því og treysti að við frekari meðferð í nefnd og í þinginu muni menn sjá að þetta er gott mál og menn munu veita því brautargengi. Þetta er mikilvægt af öllum þeim ástæðum sem ég nefndi hér áðan en ekki síður vegna þess að þegar gripið var til þessa úrræðis áttum við von á að sú niðursveifla sem við erum að glíma við núna yrði mjög skammvinn. Nú er heldur að teygjast úr henni þannig að þó að ekki væri af öðrum orsökum en þeim er skynsamlegt að framlengja þetta ótímabundið. Ég ítreka enn og aftur hér í lokin að nýsköpun er langtímaverkefni. Nýsköpun er nauðsynleg fyrir íslenskt samfélag og nýsköpun er nauðsynleg fyrir margra hluta sakir. Hún er sérstaklega nauðsynleg ef við viljum hafa traustara land undir fótum til framtíðar og hafa útflutningsdrifna hugvitsstarfsemi.