151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeim ákvörðunum sem voru teknar í gær, bæði af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra, um að opna loksins landið að einhverju marki með þeirri aðferð sem þar var ákveðin í gær, að taka gild bólusetningarvottorð frá löndum hvaðanæva úr heiminum og opna þannig fyrir frjálsa för, í lögmætum tilgangi að sjálfsögðu, m.a. frá okkar helstu vinaþjóðum, Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael, þar sem náðst hefur í öllum þessum þremur ríkjum stórkostlegur árangur í bólusetningum.

Ég hef hins vegar lýst þeirri skoðun minni í aðdraganda þessarar ákvörðunar og líka í gær og vil árétta það hér að ég geld varhuga við því að til frambúðar eða til lengri tíma verði sú regla í gildi hér eða í öðrum löndum að för fólks um landamæri verði takmörkuð við bólusetningar. Það held ég að væri glapræði og ekki í samræmi við þá sýn sem ég vona að flestir hér hafi, að menn geti um frjálst höfuð strokið þegar þeir fara á milli landamæra í lögmætum tilgangi. En ég ætlaði nú ekki að ræða þetta sérstaklega, vildi bara árétta þetta.

Mig langaði að nefna það að aðlögunarhæfni mannsins er mjög mikil og tilvísun hæstv. heilbrigðisráðherra til skoðanakannana um ánægju landsmanna til sóttvarnaaðgerða ber þess vitni. En það er hins vegar staðreynd að atvinnuleysi hefur miklu víðtækari áhrif en bara á tekjur þeirra sem missa vinnuna. Margar rannsóknir, sem við höfum séð í gegnum árin, hafa sýnt að verulegt tilfinningalegt tjón, sálrænt tjón og heilsufarslegt tjón fylgir langvarandi atvinnuleysi.

Í því samhengi langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort heilbrigðisráðuneytið, eða einhverjar af þeim undirstofnunum sem ég hygg nú að hafi mjög margar á sínum snærum m.a. embættismenn á sviði lýðheilsu, sem var mikið tískufyrirbæri hér, a.m.k. fyrir nokkrum árum, hafi sérfræðing á þessu sviði. Hefur þetta fólk og aðrir sérfræðingar í heilbrigðismálum, lagt mat á heilsufarslegar afleiðingar sóttvarnaaðgerðanna með tilliti til atvinnumissis sérstaklega?