151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er þannig hér á Íslandi að vegna þess hvernig sóttvarnalöggjöfin er hugsuð eru miklar skyldur lagðar á herðar sóttvarnalækni, eins og hv. þingmaður veit, um að gera tillögu við ráðherra hverju sinni. Síðan er það ráðherra og ráðuneytisins að yfirfara þær tillögur og vega og meta þær með hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttarins og öðrum slíkum málefnalegum sjónarmiðum. Það höfum við ítrekað gert og við vitum að við höfum lagt mikla áherslu á að þessi gögn væru öll aðgengileg. Ég tel að það hefði verið erfitt að ráðast í það að meta eitthvað fyrir fram, segjum í febrúar fyrir ríflega ári síðan, um faraldur sem við vissum mjög lítið um hvernig myndi ganga yfir. En ég fullvissa hv. þingmann um að ég hafði hraðar hendur þegar kom að því að setja þessa umræddu stýrihópa í gang.

Ég vil líka árétta það sem fram kom í fyrra svari mínu, að við höfum lagt áherslu á það í öllum þessum faraldri að aðgerðir okkar væru eins mildar og nokkurs væri kostur, þ.e. þessar samfélagslegu aðgerðir. Við höfum lagt megináherslu á það sem kallað er í daglegu tali persónubundnar sóttvarnir, sem eru 2 metra reglan, handþvottur og grímunotkun. Og þegar öllu er á botninn hvolft er það það sem skiptir sannarlega mestu máli í árangri í sóttvörnum. Við höfum aldrei beitt aðgerðum af þeim þunga sem við höfum séð sums staðar í löndunum í kringum okkur, ég nefni til að mynda Bretland, af því að hv. þingmaður nefndi það sérstaklega áðan, þ.e. útgöngubann, sem er náttúrlega ekki bara frelsisskerðing á daglegu lífi fólks heldur líka verulegt högg fyrir allt athafna- og atvinnulíf viðkomandi samfélags. Besta leiðin fyrir samfélagið er að halda því eins opnu og nokkurs er kostur.

Hins vegar er mjög mikilvægt, og ég tek undir það sem fram kemur í orðum hv. þingmanns, að stærsta viðfangsefni og vandamál okkar í samfélaginu í dag er atvinnuleysi. Langtímaatvinnuleysi er eitthvað sem íslenskt samfélag á ekki að sætta sig við.