151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Enn og aftur: Engar ákvarðanir hafa verið teknar um aðgerðir á landamærum án þess að þær séu í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis. Engar. Það er staðan og ég bið hv. þingmann að gæta að staðreyndum í málflutningi sínum. Allar tillögur sóttvarnalæknis byggja á sóttvarnasjónarmiðum. Það eru þau sjónarmið sem honum ber að leggja til grundvallar í tillögum við heilbrigðisráðherra hverju sinni og það eru þær ákvarðanir sem ég hef núna tekið. Hvað lýtur að þeirri stöðu að taka sama mark á vottorðum á landamærum óháð því hvaðan fólk er að koma þá snýst það um ákveðna jafnræðishugmyndafræði. En það breytir því ekki að við munum gera mjög harðar og ákveðnar kröfur um það hvernig þessi skjöl líta út, hvernig þessi vottorð eru tryggð, vegna þess að það skiptir mjög miklu máli að varðveita þann árangur sem við höfum náð og ég vænti þess að við séum sammála um það.