151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég get tekið undir það og ég held að það sé alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra nefnir um gagnsæið, að við séum gagnsætt samfélag og að ákvarðanir sem hafa verið teknar hafi verið byggðar á þekkingu. Mig langar að undirstrika það og ég held að það skipti einmitt líka gríðarlega miklu máli hvað íslenskt vísindasamfélag er flinkt við að miðla þekkingu til almennings þannig að við skiljum öll hvað er í gangi og hvers er ætlast til af okkur og getum þannig tekið þátt í því að hlutirnir gangi upp. Ég held að þetta muni skipta máli núna inn í, ef við getum sagt næsta fasa sem við erum að fara í. Mér fannst það mikilvægt sem kom fram í máli ráðherra um að öll vottorð sem hér verða tekin gild uppfylli sömu skilyrði.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á önnur bóluefni undir lok skýrslu sinnar. Mig langar að spyrja út í það. Er þetta eitthvað sem við megum kannski eiga von á að verða dálítið flink í, þekkja og skilja umræðuna um, þ.e. halda áfram þessari umræðu um bóluefnin, hvers við ætlumst til af þeim og hvað verði tekið gilt eftir því sem þessu vindur fram? Ég held að það sé svo mikilvægt atriði sem hér er nefnt, að það séu sömu (Forseti hringir.) vísindalegu skilyrðin sem bóluefnin þurfi að uppfylla.