151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:28]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Þetta er einmitt málið. Það þarf að vega og meta og safna upp reynslu til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um það hvernig framhaldið þarf að vera. En ég var að einhverju leyti að spyrja um aðgerðir innan lands, ákvarðanatöku út frá íslenskum raunveruleika, okkar raunveruleika og hvernig lagt er á mat á árangur sóttvarnaaðgerða innan lands. Því langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Að hve miklu leyti byggjast ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir á gögnum frá erlendum stofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sóttvarnastofnun Evrópu annars vegar, og hins vegar á reynslu af aðgerðum hér innan lands. Hvar liggur línan?

Eins vil ég spyrja ráðherra hvort hún telji að það skorti mannafla og/eða fjármagn til að stunda innlenda gagnaöflun og rannsóknir á gagnsemi sóttvarnaaðgerða hér innan lands. Við erum jú lík okkar nágrannaþjóðum að mörgu leyti. Aftur á móti eru lifnaðarhættir Íslendinga ólíkir. Er til að mynda hægt að útskýra að ekki hefur þurft að grípa til útgöngubanns, vegna þess að lífshættir eru aðrir og það er annar persónuleiki í samfélagsgerðinni og hvernig við lifum okkar lífi? Í heilt ár hafa verið sóttvarnaaðgerðir og þær hafa verið íþyngjandi þrátt fyrir að þær hafi ekki verið jafn íþyngjandi og annars staðar. Því vil ég að spyrja ráðherra: Hvernig hefur farið fram mat á sóttvarnaaðgerðum innan lands?