151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka sérstaklega fyrir samstarfið við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hefur kallað eftir nákvæmlega því sem hv. þingmaður er að spyrja um, þ.e. rökstuðningi og undirbyggingu undir sóttvarnaákvarðanir. Ég veit að hv. þingmaður hefur líka átt sæti og á sæti í hv. velferðarnefnd þar sem fjallað hefur verið um sóttvarnalöggjöfina. Og þingmaðurinn þekkir mjög vel þau álitamál sem alltaf eru undir um það hvernig maður rökstyður ákvörðun af þessu tagi, ekki síst þegar um er að ræða ákvarðanir sem fara í raun og veru inn á mikilvæg réttindi fólks. Það eru auðvitað mjög íþyngjandi ákvarðanir.

Hv. þingmaður spyr hvaða samráð hafi verið haft eða hvaða fyrirmyndir við höfum eða hvert við lítum þegar ákvarðanir eru teknar. Ég vil svara því þannig til að sóttvarnalæknir er í mjög miklu sambandi við sína kollega, í fyrsta lagi á Norðurlöndum, þeir tala mjög mikið saman. Svo er það Sóttvarnastofnun Evrópu sem hefur haft mjög mikið samstarf og samráð. Það er samráð og samtal milli heilbrigðisráðherra, bæði á Norðurlöndum og einnig í Evrópu, og við erum í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina á heimsvísu og eins Evrópudeildina. Sem betur fer hefur það verið þannig, þó að það komi ekki til af góðu, að líka hefur verið litið til Íslands. Horft hefur verið til þess hvernig við gerum hlutina og ýmsir hafa tileinkað sér þær aðferðir sem við höfum verið að beita. Þá er ég sérstaklega að vísa til aðgerða á landamærum en líka til ákveðinna ráðstafana innan lands eins og þeirra sem lúta að smitrakningu, sem við höfum beitt hér með afar góðum árangri.