151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Bara svo það sé sagt fyrst hér í mínu seinna svari, af því að hv. þingmaður veltir því aftur upp hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur vegna áhrifa breytinga á landamærum á fyrirhugaða afléttingu ráðstafana innan lands, þá er það þannig að minnisblaðið sem ég fæ frá sóttvarnalækni núna um helgina, sem felur í sér tillöguna um að bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri sýkingu séu tekin gild óháð því hvaðan þau koma, eru tillögur byggðar á þekkingu á sóttvarnaráðstöfunum. Það eru sóttvarnarök sem liggja þar að baki þannig að ég geri ráð fyrir því að sóttvarnalæknir sé algjörlega með opin augun gagnvart þessu.

En varðandi síðan efnahagslegar greiningar þá eru auðvitað greiningar sem hafa verið í gangi, eru í gangi og verða í gangi á vegum forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis, ráðuneytisstjórahópa o.s.frv., bæði á einstökum aðgerðum, áhrifum sóttvarnaráðstafana og ekki síst áhrifum á efnahags- og atvinnulíf.