151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

sóttvarnaráðstafanir og bólusetningar gegn Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af fölsuðum vottorðum. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að mjög vel sé gætt að þeim kröfum sem gerðar eru á landamærum varðandi öryggi þeirra vottorða sem þar eru lögð fram. Það gildir hér eftir sem hingað til og sóttvarnalæknir gerir reglur og viðmið fyrir starfsfólk á landamærum um það. Hv. þingmaður segir að lukkan hafi verið með okkur varðandi það að ná utan um fjórðu bylgjuna. Hún var það vissulega en líka það að við erum með mjög ákveðnar harðar aðgerðir sem við grípum til þegar þessi örfáu smit koma upp og við förum í mjög alvarlega smitrakningu og sóttkví til að ná utan um bylgjuna. Það er aðferðafræðin okkar sem er að skila okkur því að ná árangri.

Sóttvarnalæknir segir í minnisblaði til mín, og þar held ég að sóttvarnalæknir, hv. þingmaður og sú sem hér stendur séu algjörlega sammála, að mikilsvert sé að varðveita þann góða árangur sem við höfum náð og það snýst ekki síst um ráðstafanir á landamærum. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli. Þess vegna leggur sóttvarnalæknir til að við förum að prófa börn á landamærum. Hann leggur líka til að kannað sé hvort við notum sóttvarnahús meira en við höfum gert og sérstaklega þegar um er að ræða niðurstöðu þar sem viðkomandi er með jákvætt sýni af stökkbreyttu afbrigði.