151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir hér á að staðan í ýmsum löndum er alveg hræðileg þegar kemur að aðstæðum flóttafólks og hælisleitenda. Grikkland, Ítalía og Ungverjaland eru þar mjög oft nefnd. Það er einmitt þess vegna sem mér finnst svo mikilvægt, og ég var að reyna að koma að hér í máli mínu, að þau geti fengið dvalarleyfi í öðrum löndum þrátt fyrir að vera komin með stöðu í þessum löndum. Þetta er eitt af því sem ég tel að nefndin þurfi að fara mjög vel yfir, hvernig þetta spilar saman. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli að það standi skýrt í lögunum að hægt sé að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það er til þess sem þingnefndir eru, til þess að fara yfir málin. Ég er búin að lýsa því hér að ég tel að þegar kemur að málefnum flóttamanna þurfi réttlætis- og mannúðarsjónarmið að vera það sem við höfum í huga. Það er það sem ég fer með inn í nefndarstörfin og mun meta frumvarpið út frá sem og þeim umsögnum sem berast um málið og skoða í kjölfar þess hvort gera þurfi breytingar á frumvarpinu eins og það er lagt fram og taka afstöðu til þess hvaða áframhaldandi þinglegu meðferð það eigi að fá. Ég tel hins vegar að það sé margt gott í frumvarpinu og skipti máli. En það á kannski ekki við um allt og það er það sem nefndin þarf að fara yfir í sinni vinnu og skoða.