151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[16:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Málið hefur áður verið lagt fram af hæstv. dómsmálaráðherra. Það hefur ekki fengist samþykkt en það hefur tekið breytingum, m.a. með tilliti til umsagna sem borist hafa. Það gerir það að verkum að ég ætla ekki að gefa mér neitt fyrir fram um hvers konar breytingar væri hægt að gera á frumvarpinu því að ég veit ekki enn þá hvaða umsagnir koma. En mér finnst hæstv. dómsmálaráðherra alveg hafa sýnt það í gegnum tíðina að hún sé til samtals og taki til athugunar þær umsagnir sem berast. Ég ætla að fara inn í það nefndarstarf sem fram undan er með það fyrir augum að vanda til verka. Og það verður bara að koma í ljós eftir því sem starfinu vindur fram hvernig ég met frumvarpið og mögulegar breytingar sem kunna að verða á því í meðförum nefndarinnar. Það er þannig sem störfin ganga fyrir sig.