151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er freistandi að halda áfram umræðu um andsvör en ég ætla að reyna að hemja mig, alla vega í upphafi ræðunnar. Við sjáum til hvernig gengur. Við ræðum hér enn og aftur frumvarp um alþjóðlega vernd, brottvísanir og dvalar- og atvinnuleyfi. Hér er eitthvað um að vondar hugmyndir séu að skjóta upp kollinum aftur. Þar er ein sem hefur kannski verið fyrirferðarmeiri en aðrar í umræðunni í dag, en það er sú hugmynd að hafna beri hælisumsóknum ef viðkomandi umsækjandi er þá þegar með hæli í öðru ríki, svo sem í Grikklandi eða í öðru ríki. Ég skil að í fljótu bragði, ef fólk veit lítið eða ekkert um málaflokkinn, getur þetta virst rökrétt, þ.e. viðkomandi er þegar kominn með vernd, hvers vegna ætti hann þá að fá vernd hér líka? Hvað gengur viðkomandi til?

Mig langar að doka aðeins við þá spurningu. Einstaklingur sem flýr sem dæmi sýrlensku borgarastyrjöldina, sem er í einu orði hræðileg, og fær vernd í Grikklandi, hvers vegna ætti hann að fljúga alla leið hingað til Íslands og sækja hér um hæli? Ástæðan er sú, virðulegi forseti, að aðstæður í löndum eins og t.d. Grikklandi, Ungverjalandi og Ítalíu eru einfaldlega óboðlegar jafnvel þegar fólk hefur fengið vernd. Nú eru þetta þrjú tiltölulega ólík þjóðríki hvað varðar sögu, menningu, tungumál og stjórnmál, fyrir utan það sem þau eiga sameiginlegt sem aðildarríki Evrópusambandsins sem þó verður sífellt minna og minna, virðist vera. Það segir sig sjálft að þegar þessi þrjú ríki eru tiltekin í greinargerð frumvarpsins, Ungverjaland, Ítalía og Grikkland, þá er það ekki tilviljun. Það er ástæða fyrir því að þessi tilteknu ríki eru oftar nefnd en önnur þegar fólk sækir hér um hæli sem hefur þegar hæli í öðrum ríkjum. Ástæðan er aðstæðurnar í þessum ríkjum. Það hlýtur að vera augljóst.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði spurningu minni áðan á þá leið að það væri bara svo mikið af hælisleitendum í þessum ríkjum, þ.e. að svo margt fólk hefði fengið hæli, og sömuleiðis að hér væri löggjöfin þannig að það væri ákveðin freistni fyrir það að koma hingað. Staðan í Ungverjalandi er t.d. þannig að það er bannað að hjálpa hælisleitendum. Ef einstaklingur sem fengið hefur hæli í Ungverjalandi ætlar t.d. að leigja íbúð eða einhvers konar húsnæði þá þekkir leigusalinn kannski ekki muninn á flóttamanni og hælisleitanda eða einhverjum með mannúðarleyfi, eða hvað þetta allt saman heitir, og vill ekki leigja viðkomandi af ótta við að brjóta lögin sem banna honum að aðstoða hælisleitendur. Þannig er staðan í Ungverjalandi. Það er bannað í Ungverjalandi að lögfræðingur taki sig til og aðstoði hælisleitanda við að vinna mál hans. Er þá eitthvað skrýtið að fólk með stöðu þar, með hæli í Ungverjalandi, leiti annað þar sem það getur ekki einu sinni leigt húsnæði vegna þess að leigusalinn heldur að hann geti verið að brjóta lögin? Það er reyndar ekki rétt ef viðkomandi er búinn að fá hæli, ef út í það er farið. En við þekkjum hvernig umræðan er hér á landi og hún hlýtur að vera verri í Ungverjalandi. Fólk þekkir ekki muninn á hælisleitanda og flóttamanni eða öðrum hugtökum sem notuð eru í daglegu tali, það er kannski ekki fólk sem sérhæfir sig í því að leigja húsnæði. Mér finnst þetta augljóst þar sem ég veit þessa hluti. Ég skil alveg að þeir séu ekki augljósir fyrir einhvern sem veit þetta ekki, en það er þá hér með leiðrétt, enn og aftur.

Í Grikklandi er fólk í flóttamannabúðum. Aðstæðurnar þar eru oft og tíðum óboðlegar. Þær eru misjafnar, það fer eftir því um hvaða búðir er að ræða. En þar er ákveðin lágmarksheilbrigðisþjónusta, t.d. fyrir börn, sem ég hefði haldið að okkur væri ekki sama um. Þegar fólk fær vernd í Grikklandi missir það þessa aðstoð. Það fær ekki lengur að vera í búðunum og á þá að vera hvar, virðulegi forseti? Úti á götu. Þannig er það þar. Staðan versnar. Það er fyrir utan pólitíska ástandið þar sem einkennist af útlendingaandúð, eins og í nokkrum öðrum Evrópuríkjum, því miður, og þá sérstaklega í Ungverjalandi. Er eitthvað skrýtið að svona einstaklingur vilji frekar koma til Íslands til að fá að vera í friði fyrir því sem gengur á í Grikklandi eða Ungverjalandi? Það er ekkert skrýtið við það, ekki neitt. Það er engin tækifærismennska fólgin í þessu. Þetta er sjálfsbjargarviðleitni. Sama sjálfsbjargarviðleitnin og fékk manneskjuna til Grikklands eða Ungverjalands eða Ítalíu til að byrja með. Þessir einstaklingar eru ekkert endilega að leita til þessara landa, jafnvel allra síst, en vegna þess að Evrópa er staðfastlega ákveðin í því að klúðra þessu frá A til Ö erum við búin að koma á fót fáránlegu kerfi sem er það að umsóknarlöndin hafa sérstakan feril til að senda fólk til fyrstu ríkjanna sem hælisleitendur koma til. Sá sem ætlar sér að sækja um hæli í Hollandi eða Noregi eða Frakklandi en lendir fyrst á Ítalíu, vegna þess að þangað rak bátinn á land, á á hættu að festast þar. Ítölsk yfirvöld vilja ekki hafa hælisleitendann þar. Hælisleitandinn vill ekki vera þar. Hver vill hafa hann þar? Holland og Frakkland og Ísland. Og hin löndin sem vilja ekki taka við viðkomandi.

Virðulegi forseti. Þetta er galið kerfi. Ég er algerlega sammála hv. þingmönnum Miðflokksins um að það hafi beðið algjört skipbrot. Ég er bara ósammála þeim um hvers vegna það er svo. Lausnin við þessu er ekki sú að þrengja meira og byggja hærri veggi og eyða meiri peningum og byggja stærra og dýrara og hægvirkara bákn til þess að halda utan um þennan vegg og þessa varðmenn á veggnum. Það er ekki lausnin, virðulegur forseti, það er vandamálið. Það er vandamálið sem kostar þessar óheyrilegu upphæðir, sem ég er líka sammála hv. þingmönnum Miðflokksins um að séu of háar og að við séum að nota þær í kolranga hluti. En lausnin er þá ekki hærri veggir og fleiri varðmenn á þá veggi. Lausnin er að við beitum okkur fyrir því, þar á meðal með fordæmi, upp að því marki sem við getum skynsamlega, að Evrópa taki sig saman í andlitinu og auki frjálsræðið í þessum efnum sín á milli þannig að einhver sem býr í Grikklandi geti líka búið annars staðar.

Ég vil minna á annað sem heitir EES-samstarfið sem við erum aðilar að. Ég er reyndar ekki viss um að allt of margir Evrópubúar séu í daglegu lífi mjög meðvitaðir um það, köllum það Evrópusambandið. En hluti af því er að Grikkir mega flytja til Frakklands og Frakkar mega flytja til Grikklands og það er gott. Var heimurinn betri þegar það var ekki þannig? Var það betra þegar það var landamæraeftirlit á milli Austurríkis og Þýskalands og Póllands og Þýskalands? Var það betra, virðulegi forseti? Væri betra ef við værum með tollskoðun á milli Reykjavíkur og Selfoss? Væri það skilvirkara, virðulegur forseti? Væri það ódýrara? Værum við að spara ríkisfé með því? Nei, við værum ekki að því. Það væru vondar ákvarðanir. Það væru vondar leiðir. Frelsið er gott, ekki bara vegna þess að við erum hér syngjandi og valhoppandi hippar heldur af því að það er gott fyrir samfélög. Það er gott fyrir einstaklinga, gott fyrir okkur öll hér, enda þykjumst við öll, alla vega í töluðu orði, aðhyllast það í meginatriðum í það minnsta. En þegar kemur að hælisleitendum og flóttamönnum þá snarbreytist hugarfarið og markmiðið verður að passa að veggirnir haldi, að fólk komist ekki á milli og að einhver sem sé með hæli á einum stað megi sko ekki fá hæli á öðrum vegna þess að það væri svo dýrt, það væri svo óskilvirkt.

Virðulegi forseti. Þetta stenst ekki heila hugsun. Þetta er ekki bara Íslandi að kenna. Þetta er Evrópu í heild sinni að kenna, enda er hvert einasta þjóðríki bara að hugsa hlutina út frá sínu afmarkaða þjóðríkissvæði, sem eru algjör mistök að mínu mati. Ég verð þá, fyrst ég er búinn að særa tvo hv. þingmenn Miðflokksins í innri sal, og ég þakka þeim fyrir að vera hér með okkur, að geta þess að nýlega var ályktun Sameinuðu þjóðanna um reglulega fólksflutninga samþykkt, um farendur. Ég man ekki nákvæmlega hvað hún heitir. Því var mótmælt hástöfum og sagt á Útvarpi Sögu og víðar að þarna værum við að missa stjórn á landamærunum okkar og allir útlendingarnir myndu flæða hingað inn og guð má vita hvað, alls konar vitleysa sem ekki er að finna í því ágæta skjali. Ég sagði á sínum tíma í viðtali við Útvarp Sögu, að ef andstæðingar þess máls myndu drattast til að lesa það væru þeir ekki á móti því. Þótt við séum ósammála um nákvæmlega hversu frjálslynd við viljum vera í þessum málum sem og öðrum, sem ég skil mætavel, eru það ákveðnir hlutir sem við ættum að geta verið sammála um, t.d. að við myndum vilja nota þetta fé betur og í aðra hluti. Ég held að við séum alveg sammála um það. En við erum ekki sammála um hvernig við eigum að gera það eða hvaða leið sé best fær til að ná því markmiði. En þegar kemur að því að hafa för fólks reglulega þá hljótum við að vera í sama liði. Við hljótum að vilja hafa þetta skipulagt. En Evrópa og þar á meðal Ísland, sem hluti af EES-samstarfinu, Schengen og öllu því, áttar sig ekki á því að það eru grundvallarmistök að það eigi að hólfa þetta vandamál niður í einstaka þjóðríki. Það eru grundvallarmistökin sem valda ofurálagi á tiltekin þjóðríki eins og Ítalíu og Grikkland.

Það vekur líka athygli mína að svolítið hefur verið talað um að hér séu fleiri hælisumsóknir en í Noregi, Danmörku og Svíþjóð — þær eru pínulítið fleiri en í Svíþjóð, ekkert mikið fleiri, reyndar mjög sambærilegar miðað við höfðatölu. Það kennir enginn Noregi og Danmörku um að við fáum fleiri umsóknir vegna þess að Noregur og Danmörk séu að þrengja sín skilyrði, þrengja sín lög. Nei, þeim er ekki kennt um það. Það er kvartað undan því að við gerum það ekki líka. Það er kvartað undan því að við þrengjum ekki nóg sjálf, að það sé vandinn. En það er ekki vandinn. Mönnum verður líka tíðrætt um að við getum ekki hjálpað öllum, getum ekki tekið á móti öllum. Ég auglýsi aftur eftir þeim hv. þingmanni sem hefur sagt hér að við ættum að taka við öllum. Ég man ekki til þess að hafa heyrt það og ég hef ekki sagt það sjálfur. En Evrópa gæti það, og gæti það sennilega frekar léttilega. Þetta eru nokkrar milljónir manna, ég man ekki nákvæmlega hversu margar. Evrópa er um 500 milljónir, plús/mínus eitthvað. Evrópa gæti það ef hún ákveddi að gera það. Þess í stað hugsa Evrópuþjóðirnar, eins og Ísland núna í þessum málum og öðrum, alltaf eins og vandamálið snúi einungis að því eina tiltekna þjóðríki. Það er ekki þannig.

Virðulegi forseti. Flóttamannakrísan er í eðli sínu alþjóðlegt vandamál, alþjóðlegt viðfangsefni, og við verðum að vinna saman að því að vinna bug á því vandamáli. Það gerum við ekki með því sífellt að reyna að þrengja reglurnar og ýta fólki til annarra landa. Við ættum frekar að reyna að taka við þeim sem við þó getum, sem eru fleiri en við gerum í dag. Við gætum nýtt peningana betur en við gætum tekið við fleirum en við gerum í dag, miklu fleiri, hygg ég reyndar, og vera þá helst í fararbroddi ef við kæmumst upp með það, innan Evrópu við að koma á því hugarfari að við séum að reyna að leysa vandann með einhverju öðru en einfaldlega því að skófla öllum útlendingunum eitthvert annað.

Það er fleira í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, en það er þetta sem stakk sérstaklega í augu. Ég hygg að það sé eitthvað gott í þessu frumvarpi. Svona stór frumvörp um útlendingamál eru nú sjaldan alvond. En einhvern veginn höfum við, frá því að ég settist á þing 2013, sífellt verið að lögfesta hluti til að varast einhvern yfirþyrmandi þunga á þetta kerfi. Alltaf er verið að setja nýja löggjöf til að hamla meira og gera þetta auðveldara og skilvirkara fyrir kerfið sjálft og einhvern veginn mistekst það alltaf. Hvers vegna? Vegna þess að við erum að hugsa þetta rangt, við og Evrópa öll.