151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við spurningu minni er 0. Þess vegna spyr ég hv. þingmann, af því að hann er hér að þyrla ryki í augu fólks sem er að reyna að skilja flókið og viðamikið kerfi sem er ekki allra að skilja í heild sinni, enda eru mismunandi tegundir mála, mismunandi skilgreiningar á ýmsum hugtökum og flókið kerfi sem við höfum verið að reyna að þróa síðustu ár.

Við erum að bregðast við. Hv. þingmaður segir að við séum alltaf að bregðast við til að takmarka réttindi fólks. En hver er sagan hérna? Sagan er sú að við höfum aldrei veitt fleirum alþjóðlega vernd. Og af hverju er það? Af því að kerfið virkar þannig að þeir sem koma og eiga rétt á henni og falla undir skilgreininguna, sama hversu margir þeir eru, fá alþjóðlega vernd. En við verðum að geta verið í stakk búin til að takast á við þann fjölda og þann hóp til að veita þeim alþjóðlega vernd og hraða þá ýmsum öðrum málum sem leiða almennt til neikvæðrar niðurstöðu. Þannig virkar kerfið. Þetta er allt öfugsnúið hjá hv. þingmanni sem reynir að þyrla upp ryki um slæmt og ómannúðlegt kerfi sem er það alls ekki. Við gerum vel. Við erum alltaf að reyna að gera betur en við viljum líka að kerfið ráði við það sem það sinnir, að fólk fái svör fyrr. Síðan má alveg fabúlera og velta fyrir sér hvort kerfið í heild sinni í Evrópu sé orðið úrelt. Það eru umræður í Evrópu um meiri samstöðu, að deila betur ábyrgðinni. Það næst lítil samstaða um það. En þetta frumvarp snýst ekki um það. Það snýst um að við viljum gera betur og svara fólki fyrr, sem er partur af því. En það mun ekki breyta því hve margir fá hér alþjóðlega vernd af því hún er alltaf skilgreind á sama hátt og í öðrum löndum.