151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þess að ég kem hérna upp eru orð sem hv. þingmaður lét falla um fjölmiðil, lítinn einkarekinn fjölmiðil, sem er Útvarp Saga. Þetta er í annað sinn sem ég verð vitni að því að hann telur við hæfi að hnjóða í lítið, einkarekið fyrirtæki úr ræðustól Alþingis. Ég vil segja við hv. þingmann í fyllstu vinsemd að ég tel þetta ekki með öllu viðeigandi að nota ræðustól Alþingis til að reka hornin hér í íslensk einkafyrirtæki sem þurfa náttúrlega að berjast fyrir lífi sínu dag hvern í mjög erfiðu og krefjandi umhverfi og fyrir það eitt að hv. þingmanni líki ekki einhverjar skoðanir sem þar koma fram. Það stendur að vísu þannig á að það koma mjög margar skoðanir fram á þessari útvarpsstöð vegna þess að það er opinn símatími sem mjög margir nýta sér til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, sem þeir myndu kannski ekki geta gert á mörgum öðrum fjölmiðlum. En ég segi þetta bara við hv. þingmann í allra mestu vinsemd.