151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Ég vil byrja á því að vísa til þess sem segir í greinargerð með frumvarpinu um tilefni og nauðsyn lagasetningar. Á bls. 9 segir, með leyfi forseta:

„Þegar stjórnsýslan hér á landi stendur frammi fyrir áskorunum sem leiðir af mikilli fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd er brýnt að rýna í þróunina í því skyni að meta hvort sú þróun eigi sér eðlilegar skýringar eða hvort nauðsynlegt sé að breyta regluverki eða framkvæmd hér á landi til að bregðast við stöðunni. Við slíka athugun þarf að taka mið af regluverkinu og framkvæmd hér á landi, alþjóðlegum skuldbindingum á þessu sviði en jafnframt regluverki og reynslu nágrannaríkja eins og hinna Norðurlandanna“ — eins og komist er að orði — „sem íslensk stjórnvöld bera sig gjarnan saman við.“

Þetta er ágætt og ég vil nota tíma minn hér til að fjalla lítillega um nýlega þróun á Norðurlöndunum, einkanlega í Danmörku og Noregi.

En áður en ég kem að því vil ég víkja að 6. kafla greinargerðar, um mat á áhrifum, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið er liður í að mæta þeim annmörkum sem hafa komið í ljós við beitingu laga um útlendinga, nr. 80/2016, og þar með gera framkvæmd þeirra skýrari og fyrirsjáanlegri og auka skilvirkni í málefnum sem undir lögin heyra.“ — Og undir þetta má taka.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér útgjaldabreytingar fyrir ríkissjóð sem nokkru nemur en gefi færi á aukinni skilvirkni í málsmeðferð útlendingamála.“

Þessi orð eru þannig að maður myndi taka undir það og fagna því að stefnt sé að aukinni skilvirkni en það hefði auðvitað verið til marks um aukinn metnað ef búið hefði verið þannig um hnúta að sett væru frekari bönd á kostnað sem hefur vaxið heilt yfir litið á undanförnum árum með mjög bröttum hætti þó að úr því hafi kannski dregið vegna veirufársins.

Herra forseti. Það verður ekki betur séð en að Norðurlöndin hafi söðlað um í stefnu sinni í málefnum hælisleitenda. Sterkur samhljómur er með Dönum og Norðmönnum í þeim efnum. Nýja stefnan felst í að veita fólki hjálp með atbeina alþjóðlegra stofnana, að styðja við fólk á heimaslóð þar sem fé nýtist sem best og gagnast sem flestum fyrir utan að taka við kvótaflóttamönnum, sem svo eru kallaðar, í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.

Af hálfu dönsku ríkisstjórnarinnar hefur verið lagt fram frumvarp í samræmi við stefnu eina flokks þeirrar ríkisstjórnar sem er danski jafnaðarmannaflokkurinn. Þá liggur fyrir danska þjóðþinginu frumvarp þess efnis að hælisleitendur sæki um í móttökustöðvum utan Evrópu. Þetta var lagt upp og gert að stóru kosningamáli fyrir kosningarnar síðast þegar kosið var til þings í Danmörku. Þetta stefnumál danskra jafnaðarmanna var mjög mikið rætt og það var kynnt í stefnuyfirlýsingu jafnaðarmanna sem ber yfirskrift sem mætti þýða sem Réttlát og raunhæf heildaráætlun um danska útlendingastefnu.

Ástæða er til að vísa sömuleiðis til stjórnarsáttmála norsku ríkisstjórnarinnar, sem er dagsettur í janúar 2019, um að ríkisstjórnin hyggist tengja Noreg með sterkari hætti við evrópsk ferli um sameiginlegt evrópskt kerfi sem getur falið í sér stofnun sameiginlegra hælismiðstöðva utan EES og eflingu ytri landamæra Schengen-landanna. Þannig að menn sjá þann samhljóm sem er á milli Dana og Norðmanna í þeim efnum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að vísa til greinar sem ráðherra útlendinga og aðlögunarmála í dönsku ríkisstjórninni, jafnaðarmaðurinn Mattias Tesfaye, skrifaði á fréttamiðilinn Altinget, eins og þeir kalla hann, í því skyni að grípa til varna eftir harða gagnrýni á fyrrgreint frumvarp í danska þjóðþinginu en það er um heimild til að flytja hælisleitendur í móttökustöð utan Evrópu. Ríkisstjórnin leggur mjög þunga áherslu á þetta frumvarp og sumir kalla það rós í hennar hnappagati. Gagnrýnin kom fram í umsögnum stofnana og er Amnesty International þeirra á meðal. Er því haldið fram að stefna dönsku ríkisstjórnarinnar um móttökustöð feli í sér skort á samkennd, sé ómannúðleg og taki frá fólki réttinn til að leita hælis. Ráðherrann Mattias Tesfaye skrifar á fyrrgreindan vefmiðil að þessu sé hann algerlega ósammála. Hann segir að við ættum að spyrja okkur sjálf hvers hælisleitendur og flóttamenn geti krafist og segist hann telja að svarið sé vernd. Það sé þó komið undir því að þeir fullnægi skilyrðum til að fá hæli. Ráðherrann skilyrðir svar sitt með því að bæta við að hælisleitendur og flóttamenn eigi ekki kröfu á framtíð í vestur-evrópsku velferðarríki: Við berum ekki ábyrgð á að milljónir manna taki sér bólfestu hér, segir hinn danski ráðherra í ríkisstjórn jafnaðarmanna.

Í grein sinni segist ráðherrann telja að frumvarpið um móttökustöð muni leiða til umtalsverðrar fækkunar hælisleitenda á danskri grundu. Þetta leiði af sér aukið fé til að hjálpa fleirum á heimaslóð. Fleiri flóttamenn fái vernd nær heimkynnum sínum í stað þess að hætta lífi sínu í siglingu yfir Miðjarðarhafið þar sem fjöldi fólks hefur drukknað. Hann segir: Milljónir flóttamanna hafa fengið vernd í löndum utan Evrópu, kannski í samfélögum sem líkjast meira landinu þaðan sem þau flúðu en Danmörk gerir. Við í Danmörku skulum leggja okkar af mörkum til að flóttamenn fái vernd. Þeir eiga bara ekki kröfu á að verndin sé veitt í velferðarríki.

Ráðherrann segir einnig að fyrirkomulagið að flytja hælisleitendur til þriðja lands muni að sjálfsögðu gerast innan marka alþjóðlegra skuldbindinga sem Danmörk hefur undirgengist, slíkt sé forsenda fyrir samkomulagi við þriðja land. Vísar hann til lögfræðiálits sem staðfesti að alþjóðasamningar sem Danmörk á aðild að standi ekki í vegi fyrir þessu fyrirkomulagi. Nú taki við í næstu lotu að hefja með ákveðnari hætti viðræður við þau lönd sem dönsk stjórnvöld telja koma til greina sem möguleg samstarfslönd í þeim efnum. Ráðherrann leggur mikið upp úr því að umheiminum berist skýr skilaboð um að dönskum stjórnvöldum sé full alvara.

Í því sambandi má vísa í nýlega frétt í vefmiðlinum mbl.is þar sem haft er eftir forsætisráðherra Dana, Mette Frederiksen, að það sé markmið hennar að enginn sæki um alþjóðlega vernd í Danmörku. Þetta sagði hún í umræðum í danska þinginu.

Herra forseti. Hv. þm. Birgir Þórarinsson vitnaði hér fyrr í dag til danskra talna um kostnað við hælisleitendur á ári hverju sem er raktar til fyrrnefnds ráðherra í dönsku ríkisstjórninni. Hann segir að það kosti um 300.000 danskar krónur á ári á hvern slíkan hælisleitenda, halda honum uppi, eftir að hann hefur fengið afsvar. Þetta segir ráðherrann dýrt og óviðunandi en þessi fjárhæð, miðað við gengi gjaldmiðla eins og það er núna, svarar til ríflega 6 millj. kr. íslenskra. Ráðherrann segir að halda beri aðstreymi til Danmerkur í skefjum. Þetta spari stórfé við að senda úr landi hælisleitendur sem hafi fengið afsvar. Féð megi nota til að hjálpa miklu fleira fólki og betur á heimaslóð. Þetta er ítrekað af hálfu ráðherrans.

Ráðherrann segir í grein sinni: Við hjálpum fólki í tugþúsunda tali en það gerist handan danskra landamæra og vekur sjaldnast sömu athygli heima fyrir og hin eilífa deila um fólk sem tekist hefur að komast til Evrópu og Danmerkur. Eilítil þröngsýni, segir ráðherrann. En hér birtist kjarni hinnar breyttu norrænu stefnu, leyfi ég mér að segja, sem felst í að taka áfram við kvótaflóttamönnum í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar, draga úr móttöku hælisleitenda en leggja sig fram við að hjálpa fólki á heimaslóð þar sem peningarnir nýtast sem best til að hjálpa sem flestum með það að markmiði að hjálpa þúsundum manna eða tugþúsundum eins og ráðherrann segir Dani hafa gert.

Herra forseti. Þetta er allt spurning um skilvirkni og ráðstöfun á takmörkuðu fé og því takmarkaða fé verður að verja með skynsamlegum og ábyrgum hætti þannig að það gagnist sem best og nýtist sem flestum sem eiga undir högg að sækja og að við rækjum skyldu okkar gagnvart samtímanum, gagnvart þeim flóttamannavanda sem uppi er, með slíkum hætti að nýta fé sem best þannig að það gagnist sem flestum.