151. löggjafarþing — 70. fundur,  18. mars 2021.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

590. mál
[14:00]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef þó við afgreiðslu þess. Um er að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir fyrirtæki sem eiga í þessum sérstaka vanda sem við þurfum ekki að hafa mörg orð um og sem okkur er öllum kunnugt um af hverju stafar og er í mörgum tilvikum ærinn og vonandi tímabundinn. Hér er verið að bregðast við tímabundnum vanda sem kemur til af sérstökum ástæðum.

Þær raddir heyrðust vissulega hjá gestum sem komu fyrir nefndina að allt eins og greiðsluskjól mætti í einhverjum tilvikum kalla þetta skálkaskjól, þ.e. að þarna væru líka aðilar sem hefðu verið komnir í alvarleg vanskil löngu fyrir daga Covid og jafnvel áður en erfiðleikar hófust í ferðaþjónustugreinum og að þeir hefðu þarna ómaklegt skjól.

Ég tel það ekki í verkahring hv. allsherjar- og menntamálanefndar að greiða úr því eins og sakir standa og eins og málum er háttað, heldur erum við einvörðungu að framlengja úrræði sem þegar hefur verið fyrir hendi og hefur reynst ýmsum aðilum vel.

Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara og sá fyrirvari lýtur að því að ég tel mikilvægt, og ég hefði talið mikilvægt, að samhliða þessu hefði verið lagt fram frumvarp eins og gert var samhliða sambærilegu frumvarpi í maí sl. og snerist um kennitöluflakk, aðgerðir gegn kennitöluflakki. Það var frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Ég hefði viljað sjá það frumvarp samhliða vegna þess að ég tel að þetta sé nátengt og þarna hefðum við kannski getað tekið á skálkaskjólinu. Í annan stað laut fyrirvari minn að því að ég hefði viljað sjá í tengslum við þetta koma fram tillögur sem væru með svipuð og sambærileg úrræði fyrir heimili og einstaklinga sem eiga nú um sárt að binda og eiga í vanda vegna tekjufalls sem hlotist hefur af Covid og þurfa á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda.

Að svo mæltu lýsi ég yfir stuðningi — og Samfylkingin — við þetta mál.