151. löggjafarþing — 70. fundur,  18. mars 2021.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar.

590. mál
[14:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, það var einhugur í allsherjar- og menntamálanefnd um mikilvægi þessa máls og að það fengi skjóta afgreiðslu í nefndinni. Þetta er auðvitað brýnt mál, ríkir hagsmunir að baki, og í sjálfu sér sjálfstætt markmið að eyða óvissu rekstraraðila um að í þessu úrræði og þessari aðgerð yrði lengt. Það hefur komið fram áður og er öllum ljóst að um tímabundna heimild er að ræða en í ljósi þess einmitt, óvissunnar að baki, fannst mér gagnrýnisvert hversu skamman tíma nefndin fékk til að vinna úr málinu. Það var í mínum huga og flestra, allra vil ég leyfa mér að segja, ljóst að í þetta þurfti að fara. Það geti ekki við þessar aðstæður verið þannig að stjórnvöld séu a.m.k. óbeint að auka á óvissu fyrirtækja í rekstri þegar aðstæður eru þær sem nú eru.

Ég er á nefndarálitinu í ljósi þess sem ég hef nefnt hér að framan, þ.e. að þessir ríku hagsmunir eru að baki. Ég vek athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu að viðraðar hafa verið áhyggjur af því hvað lenging þessa úrræðis hefur mögulega í för með sér hvað varðar ábyrgðir utan ábyrgðartímabils, þ.e. Ábyrgðasjóðs launa. En það liggur fyrir, eins og rakið er í nefndarálitinu, að nefndin leggur áherslu á að í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps verði ákvæði laganna endurskoðuð og framkvæmdin rýnd, m.a. hvað varðar samspil þessara þátta.

Ég fagna því að okkur tókst að vinna hratt og vel úr þessu máli og er ánægð með að sjá það fram komið hér í dag.