151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að veiran er algerlega á fullri ferð út um heiminn, það eru að finnast ný afbrigði, bóluefnin eru ekki 100%. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir að ástæða sé til að hreyfa sig hægt á þessum krítísku tímum og hvort það sé ekki mikilvægt að nefndin, sem tekur að sér að flytja málið með þessum látum hér inni á þingi, taki sér tíma til að fara yfir hvað í raun og veru er þarna á ferðinni. Hvað býr að baki og hvers vegna þarf að flýta þessu svona mikið? Og ég vil biðja hv. þingmann um að sjá til þess að á fund nefndarinnar verði kallaður sóttvarnalæknir til að fara yfir stöðuna og gefa góð ráð um það hvernig við ættum að haga okkur í þeirri krítísku stöðu sem við erum í núna. Að vísu var aðeins eitt smit í gær sem var utan sóttkvíar. Við höfum verið á góðum stað en það sama er ekki að segja um önnur lönd. Það eru breska afbrigðið, brasilíska afbrigðið og afbrigði frá Afríku sem er erfitt að vinna með og eru bráðsmitandi. Er þá rétti tíminn fyrir okkur að fara að liðka til á landamærunum? Eigum við ekki að fara aðeins varlegar? Ég hvet hv. þingmenn og hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fara mjög vandlega yfir þetta mál og rífa það ekki í gegnum þingið í dag með lítilli umræðu.