151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er úr vöndu að ráða ef við megnum ekki að vinda ofan af farsóttinni á réttan hátt, farsælan hátt, frammi fyrir, hvort það er ferðaþjónustunni, öðrum atvinnuvegum eða okkur sjálfum. Þá erum við í vandræðum, vissulega. Í ríkjunum í kringum okkur er búið að bólusetja milljónir manna sem við gætum ímyndað okkur að eigi hingað erindi almennt séð. Þannig að auðvitað er fullt af fólki, ef við orðum það þannig, sem er að fá sömu vernd og við hér heima. Og ég býst við að við myndum ferðast bólusett til annarra landa ef það væri heimilt þar. Nema hvað, ekkert bóluefni er 100% og það hefur aldrei verið til. Ég held að við getum verið alveg róleg ef virknin er 70, 80, 90%, eins og mér skilst að sé í þessum tilvikum. Þannig að ég ber engar brigður á bóluefnin. Tekin eru tvö skref til varnar, annars vegar er flugrekanda gert skylt að tryggja að enginn fari inn í flugvélarnar sem ekki hefur þessi skjöl og hins vegar eru þessi skjöl sannreynd á landamærunum. Mikið nær komumst við ekki nema með því að skylda alla aftur í sóttkví sem hingað koma.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði, að þetta eru tvö stig í sóttvarnaaðgerðum, það er annars vegar sérfræðingurinn sem fylgist með og leggur fram forsendur og síðan er það ráðherra, stjórnvaldið, sem tekur ákvarðanir. Þar er dómsmálaráðherra annars vegar og sóttvarnalæknir hins vegar. Með vísan til nefndar erum við jú ekki að flýta okkur neitt, þvert á móti. Þetta verður ekki afgreitt héðan í dag ef einhverjum hefur dottið það í hug, heldur mun hv. samgöngu- og umhverfisnefnd taka málið til meðferðar á sínum næsta fundi til að byrja með og síðan gengur þetta í einhverjum skrefum sem ég sé ekki fyrir.