151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef áhyggjurnar snúast um íslenska ríkisborgara og sóttvarnir skil ég þær ekki alveg, vegna þess að hingað til hafa verið í gildi ákveðnar sóttvarnareglur fyrir alla á landamærunum og Íslendingar hafa gengið í gegnum þær eins og aðrir. Það gildir þá auðvitað líka um þessar. En það hefur jafnframt verið þannig að það er engum Íslendingi snúið við og hann sendur út í heim aftur. Mig minnir að það hafi beinlínis verið orð dómsmálaráðherra í einhverjum umræðum hérna að það verði engum Íslendingi snúið við á landamærunum. Hann verður þá náttúrlega að hafa íslenskt vegabréf með sér eða eitthvað slíkt því til sönnunar að hann sé örugglega Íslendingur. Þeim málum er þannig fyrir komið að þetta breytir engu um það sem verið hefur í gildi.

Það sem ég var að reyna að segja fólki hér, hv. þingmönnum, er að það sem verið hefur í gildi núna undanfarið, fyrir þá sem eru innan og utan Schengen, breytir engu og hafi menn haft áhyggjur af komu Bandaríkjamanna til Íslands eða Íslendinga til Íslands þá gilda þessar reglur alveg jafnt núna. Það er það sem verið er að gera, verið er að fella brott það sem kallast lögmætur eða brýnn tilgangur þannig að það geta komið fleiri en áður. Það er það sem málið snýst um.