151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[14:51]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir að bregðast við skjótt og vel svo að þessi umræða komist á dagskrá. Yfirskriftin er um aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar. Það liggja fyrir þrjár spurningar til ráðherrans undir þessum lið og langar mig aðeins að fara yfir þær.

1. Hvað telur ráðherra að innlend framleiðsla geti staðið af sér stóra markaðshlutdeild innflutnings á kjöti án þess að rekstrarforsendur fyrir framleiðendur og afurðafyrirtæki þeirra dragist saman og hver eru markmiðin í þeim efnum?

2. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaðurinn eigi að takast á við að inn til landsins séu fluttar fyrst og fremst vörur úr próteinhluta mjólkurinnar sem einmitt er meira framleitt af en íslenski markaðurinn tekur við?

3. Hvaða leiðir eða aðgerðir eru ætlaðar til að aðstoða landbúnaðinn við að takast á við kostnað vegna orkuskipta og annara aðgerða til að minnka kolefnisspor?

Hæstv. forseti. Ég er í raun og veru með fjórðu spurninguna og langar mig að hafa smáformála fyrir henni, það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti líka svarað henni. En aðdragandinn að henni er svona: Það er óumdeilt að íslenskur landbúnaður og afurðasölufyrirtæki í eigu bænda hafa orðið fyrir verulegri ágjöf á undanförnum misserum. Aðdragandinn er í grófum dráttum tollasamningur frá 2015, innflutningur á hráu kjöti, breytt fyrirkomulag við útboð á tollkvótum sem reyndar hefur verið tekið tímabundið úr gildi. Svo til að setja punktinn yfir i-ið er eftirspurnarsamdráttur vegna Covid-19. Vonandi lagast ástandið eitthvað á yfirstandandi ári þegar áhrifin af Covid fara minnkandi. En hvað er til ráða? Hvers vegna eru gerðar mun meiri kröfur til innlendrar framleiðslu en innfluttrar þegar kemur að sýklalyfjanotkun og velferð dýra? Af hverju þessi slaka samkeppni? Hún er innlendri framleiðslu til tjóns. Á þriðjudaginn kom fram á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins að samruni Norðlenska og Kjarnafæðis verður ekki samþykktur nema þá hugsanlega með skilyrðum. Og hver eru rökin? Jú, m.a. há markaðshlutdeild samrunaaðila í slátrun og vinnslu kjöts sem getur leitt til alvarlegrar röskunar í samkeppni til tjóns fyrir neytendur og bændur. Innflutningur á kjöti frá Evrópu hefur vaxið gríðarlega á síðasta áratug og er mældur í þúsundum tonna frá markaði sem telur 400 milljónir manns. Á sama tíma mega kjötvinnslur norður í landi, sem báðar eru reknar með tapi, ekki sameinast til að afstýra enn frekara tjóni. Hvað hafa stjórnvöld svo gert á sama tíma? Jú, samið um tonn á móti tonni við Evrópusambandið, samanber áðurnefndan samning ESB frá árinu 2015. Er nema von að bændur beri sig illa?

Spurningin sem kemur í framhaldi af þessu er: Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að afurðasölufyrirtækin fái sambærilega undanþágu frá 71. gr. búvörulaga og gildir um mjólkurframleiðslu í þeirri viðleitni að auka hagræðingu neytendum og bændum til hagsbóta? Ef ekki, hvernig sér ráðherra framhaldið fyrir sér?

Hæstv. forseti. Þetta var fjórða spurningin. En í þessum málum er að mörgu að hyggja. Huga verður að matvælaöryggi landsmanna og að þeir hafi aðgang að hollri og næringarríkri matvöru. Það er óumdeilt að íslensk matvæli eru framleidd við hagstæðari aðstæður en í mörgum þeim löndum sem flytja út matvæli í stórum stíl. Þegar hugað er að atriðum eins og notkun lyfja þá sýnir það sig að sýklalyfjanotkun í evrópskum landbúnaði er komin fram úr öllu hófi. Sýklalyfjaónæmi (Forseti hringir.) hjá mönnum og dýrum er vaxandi vandamál á heimsvísu þar sem sýklalyf bíta ekki lengur á ónæmar bakteríur. (Forseti hringir.) Við Íslendingar erum í einstakri stöðu með okkar góðu framleiðslu.