151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Kolefnisfótspor okkar eru stærst í samgöngum, matvælum og með innfluttum varningi. Við þurfum að endurskoða matarvenjur og taka okkur á í framleiðslu matvæla. Styrkleikar okkar til aukinnar grænmetisframleiðslu eru miklir. Við ættum að láta tækniþekkinguna vinna með okkur til að auka og auðvelda grænmetisframleiðslu hér á landi vegna þess að íslenskt grænmeti er gott og einnig til að draga úr kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Með því fengist einnig gjaldeyrissparnaður, meira fæðuöryggi, styrking byggða og aukin atvinna.

Ýta má undir grænmetisframleiðslu með ýmsum hætti, svo sem með leiðum til að nýta jarðhita betur, hvetja til nýsköpunar, með styrkjum til kaupa á betri búnaði og sparneytnari lýsingu og hækka gróðurhúsin sem fyrir eru svo afköstin verði meiri og gera styrki til raforkuflutninga markvissari. Hvetja þarf einnig unga bændur til að hefja framleiðslu með lagningu eins konar kynslóðabrúar frá þeim eldri til þeirra yngri.

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman í nýsköpun, sjálfbærni og velferð dýra. Að styrkja umhverfi landbúnaðarins tryggir rekstraröryggi og afkomu bænda, styrkir byggðir, eykur frelsi bænda og leiðir af sér hagkvæma og vistvæna gæðaframleiðslu. Við viljum að vöruverð til neytenda lækki og samkeppni aukist. Við leggjum áherslu á að ríkið setji sér matvælastefnu sem taki mið af sjálfbærni í matvælaframleiðslu, loftslagsmálum, næringu, lýðheilsu og félagslegum þáttum. Landbúnaður sé í sátt við umhverfi og náttúru landsins og komið verði í veg fyrir gróðureyðingu vegna ofbeitar. Skilið verði alfarið á milli reksturs söfnunarstöðva og vinnslustöðva í mjólkuriðnaði og við viljum skapa hvata til lífræns búskapar.