151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:11]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Saga landbúnaðar er auðvitað samofin sögu íslensku þjóðarinnar. Landbúnaðurinn er hlekkur í samfélagsgerðinni, uppspretta verðmætasköpunar, hluti menningar og akkeri samfélags í dreifðum byggðum. Það sjáum við auðvitað. Mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu er líka augljóst en einhverra hluta vegna er íslenska landbúnaðarkerfið enn að sinna kröfum fortíðarinnar en ekki nútíðar eða framtíðar. Engu að síður tel ég að sóknarfæri íslensks landbúnaðar séu mikil og mörg og það er á ábyrgð okkar að veita þannig umhverfi að við náum að grípa þau. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna um þessar mundir er að tryggja aukinn sveigjanleika í kerfinu, finna nýjar leiðir til að auka frelsi bænda til að mæta breyttum neysluvenjum og nýjum áskorunum í loftslags- og umhverfismálum. Við þurfum að tryggja frelsi bænda til að nýta þá gríðarlegu þekkingu sem þeir hafa til að nýta auðlindir landsins með þeim hætti sem þeim sjálfum finnst skynsamlegastur og tryggir áframhaldandi blómlegan grænan landbúnað hér á landi. Framtíðarsýn en ekki fortíðarþrá.

Viðreisn hefur kallað eftir raunverulegu hvatakerfi fyrir landbúnaðinn frá stofnun flokksins, kerfi sem stuðlar að nýliðun, nýsköpun, ótroðnum slóðum og getur mætt nýjum þörfum neytenda og að bændur geti unað sáttir við sinn hlut. Það er algjört lykilatriði. Framleiðsludrifið kerfi er ekki svarið við nútímakröfum í landbúnaði. Við eigum að breyta styrkjakerfinu í landbúnaði með áherslu á vistbændur, nýsköpun í grænni matvælaframleiðslu, vernd og endurheimt vistkerfa, skógrækt, rannsóknir og ferðamennsku. Við eigum að láta ríkið hætta afskiptum af sölu kjöts og þá fjármuni sem þannig sparast eigum við að setja í nýsköpunarstyrki í sveitum, t.d. til stofnunar örsláturhúsa, heimagerðra osta, meðhöndlun ullar eða til skógræktar. Með þessu er Viðreisn að segja að við treystum bændum best til að meta það sjálfir hvernig þeir nýta tækifærin á sem skynsamlegastan hátt og við viljum tryggja að þeir fái svigrúm til þess. (Forseti hringir.) Kerfið má ekki vera svo þungt að það hamli á endanum framþróun og nýsköpun í þessari mikilvægu atvinnugrein.