151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur verið flestum ljóst og enn frekar eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á þjóðinni. Miðflokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu í október síðastliðinn sem kvað á um að fela forsætisráðherra að hrinda í framkvæmd 24 aðgerðum um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar í samstarfi við bændur. Meðal markmiða tillögunnar er að stórefla innlenda matvælaframleiðslu, tryggja matvæla- og fæðuöryggi, veita neytendum umhverfisvæna, holla og næringarríka fæðu, treysta afkomu bænda, auka sjálfbærni og umhverfisvernd, varðveita þekkingu, efla rannsóknir og menntun í landbúnaði, auka skilning á mikilvægi landbúnaðarframleiðslu og vernda landgæði. Íslendingar vilja öfluga og innlenda matvælaframleiðslu sem þeir þekkja og sem þeir geta treyst. Eftirspurn eftir matvælum úr nærumhverfinu hefur sjaldan verið meiri og eykst með aukinni vitneskju neytandans um kosti innlendrar framleiðslu.

Matvælaframleiðsla þjóðarinnar er ein af grunnstoðum þess að við byggjum sjálfbært og sjálfstætt samfélag til framtíðar. Það er engum blöðum um það að fletta að víða liggja vannýtt tækifæri í landbúnaði á Íslandi. Þar sem sóknarfærin eru víða þarf að skapa jákvætt starfsumhverfi frumkvöðla sem leita leiða til að fullnýta afurðir, minnka umhverfisspor og búa til verðmæti úr áður ónýttum afurðum. Ódýr, hrein orka, hreint vatn og loft leika lykilhlutverk í framtíðarmatvælaframleiðslu á Íslandi.