151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Í landbúnaðarmálum er stefna Samfylkingarinnar skýr. Við teljum löngu tímabært að ráðast í róttæka endurskoðun á landbúnaðarkerfinu í góðu samráði við bændur. Við viljum ekki draga úr fjárframlögum til landbúnaðar á Íslandi. Markmiðið þarf að vera að nýta styrk í styrki hins opinbera betur, allt til að frelsa bændur og bæta hag þeirra og neytenda. Við viljum samhliða ýta undir og hvetja til nýsköpunar og fjölbreytni, meiri grænmetisræktar og meira af umhverfisvænni matvælaframleiðslu.

Samhliða endurskoðun á beinum styrkjum til landbúnaðar þarf að hverfa jafnt og þétt frá tollaálögum og innflutningstakmörkunum. Þetta er andstætt nútímaviðskiptaháttum. Við eigum ekki að skelfast innflutning á heilbrigðu kjöti, það er tapað stríð. Við eigum þvert á móti að sækja fram á erlendum mörkuðum og flagga úrvalshráefni. Í bili þurfa Íslendingar að kosta kapps að ná frekari samningum við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla. Matvælaframleiðsla á Íslandi hefur flest sem þarf til að vera leiðandi á heimsvísu í vistvænni matvælaframleiðslu. Ýmislegt bendir til að landbúnaðurinn þurfi í vaxandi mæli að sæta evrópskum reglum og þola fulla samkeppni utan frá þar sem Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Við þessar aðstæður eiga bændur hins vegar ekki sama aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins þar sem landið stendur fyrir utan ESB.

Gulltrygging bænda felst í því að full aðild að ESB verði keyrð í gegn, aðstæður sem íslenskir bændur búa við hvað varðar loftslag og landslag eru afar sérstæðar. Þar að auki er innlendur markaður lítill, lega landsins erfið og einangrun talsverð. Greinin er að öllu leyti starfrækt fyrir norðan 62. breiddargráðu og því vel styrkhæf sem heimskautalandbúnaður innan bandalagsins. Öll þessi atriði kæmu íslenskum landbúnaði vel, bændur sæju til sólar og það er gott fyrir þá sem yrkja jörðina.

Virðulegur forseti. Nú er tíminn, að snúa baki við fortíðinni og horfa stórhuga til grænnar framtíðar.