151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hvaða framleiðslu ætlumst við Íslendingar til að landbúnaður standi fyrir? Stórefla þarf landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Í því liggur eitt af stærstu tækifærum þjóðarinnar til framtíðar þar sem heilnæm matvæli, fæðuöryggi, matvælaöryggi og vistvæn orka á góðu verði munu spila lykilhlutverk.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem fer með málefni landbúnaðar og matvælaframleiðslu í landinu. Þá verði fylgt fast eftir ítarlegri skoðun á því að misræmi sem komið hefur fram í innflutningi og tollamálum landbúnaðarafurða verði lagað. Við sjáum það, hæstv. forseti, að þegar markaðsaðstæður eru eðlilegar þá velur fólk íslenska framleiðslu, en það er hart að henni sótt. Nú eru flutt inn matvæli og seld þannig að neytendur eiga oft og tíðum erfitt með að átta sig á uppruna þeirra. Sá mikli innflutningur sem nú dynur yfir okkur á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum, er stórslys og við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að stöðva það strax. Það eru í senn svik við neytendur og framleiðendur þessa lands.

Eitt af því sem ferðamenn sækjast eftir þegar þeir heimsækja nýtt land er að kynnast siðum og venjum og menningu viðkomandi lands. Matur og matarmenning er þar í hávegum höfð. Augljóslega vilja þeir erlendu gestir sem sækja okkur heim komast í snertingu við okkar góðu og hollu framleiðslu. Það er eðlilegt að styðja og efla þá framleiðslu. Það er okkur beinlínis til fjárhagslegs bata. Það er eitt af séreinkennum okkar sem þjóðar og styrkir þannig ferðaþjónustuna og matvælaframleiðslu þegar ferðaþjónustan kemst aftur í lag.

Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir þessa umræðu og enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera hér til svara.