151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi stafrænu smiðjurnar erum við búin að koma þeim inn í lagatexta, sem ég tel mjög mikilvægt. Eins og ég nefndi er þetta gert í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og atvinnulífið og búið að bæta miklum fjármunum þar inn í svo ég tel að það umhverfi sé mjög vel varðað í þessu frumvarpi.

Varðandi það hvort þetta sé rétti tíminn þá tel ég þetta vera akkúrat rétta tímann til að endurskoða nýsköpunarumhverfið, þegar við þurfum að spyrna okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem orðið hefur út af Covid, nákvæmlega þess vegna. Ég tel að við séum að gera hárrétt í þeim efnum.

Varðandi efnagreiningar þá var skoðað hjá viðkomandi stofnun hvort þar væri aðstaða til að vinna með það. Starfsfólk sem unnið hefur í þessari grein hjá Nýsköpunarmiðstöð flytur til þessara staða, það flytur með, eins og fram kom í frumvarpinu, svo ég tel að á því sviði verði áfram mikil fagmennska.

Í þessu máli má alltaf spyrja sig: Hvers vegna þetta og hvers vegna hitt? Þarna er verið að draga saman og sinna þessum málum mjög vel.

Varðandi það af hverju ekki eru fýsískir fulltrúar Nýsköpunarmiðstöðvar vítt og breitt um landið þá verða þeir áfram á Ísafirði og í Vestmannaeyjum og tveir frá Akureyri verða í ráðuneytinu. Það eru þessir aðilar sem fólk getur leitað til, það verður ekki bara einhver sjálfvirkur símsvari sem svarar í nýsköpunargáttinni, heldur fólk. Verið er að leggja 100 milljónir í verkefnasjóð til að byggja upp viðmót og aðstöðu og klasa vítt og breitt um landið og inn í það verkefni kemur líka byggðaáætlun og atvinnuþróunarfélög.