151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talar um sýndarleik, en eitt af því sem mig langaði svolítið að koma inn á í seinna andsvari, er skortur á sýn. Vissulega erum við með tiltölulega nýlega nýsköpunarstefnu sem ég held að sé ástæða til að endurnýja eða fara í gegnum aftur. Það er í rauninni alveg merkilegt að þó að meiri hluti atvinnuveganefndar vísi vissulega í hana í nefndaráliti sínu er hún, ef ég man rétt, lítið sem ekkert nefnd í frumvarpinu. — Einu sinni, takk. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður leiðréttir mig, hún er nefnd einu sinni. Það er sem sagt ný nýsköpunarstefna Íslands sem maður hefði haldið að lægi til grundvallar frumvarpinu, en hún er nefnd einu sinni. Mér finnst það benda til þess að hún sé kannski ekki góður grundvöllur fyrir þær breytingar sem verið er að leggja til í frumvarpinu.

Það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar að það var ekki mikið af greiningum sem lá til grundvallar þessari ákvörðun. Mig langaði því að spyrja hv. þingmann hvort slík greiningarvinna hefði ekki þurft að fara fram til að grundvalla þessa ákvörðun betur og skila betri vinnu í framhaldinu.

Sömuleiðis langar mig að inna hv. þingmann eftir skoðun hans á því að nú er ráðuneytið búið að ganga ótrúlega langt í að búta niður Nýsköpunarmiðstöð og í rauninni búið að leggja hana niður áður en afstaða þingsins liggur fyrir. Hvað segir hv. þingmaður um slík vinnubrögð?