151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[18:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einstaklega áhugaverð og góð orð um að Píratar séu á undan sinni framtíð. Mér finnst það æðislegt og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Í nefndaráliti sem hv. þingmaður er skrifaður fyrir fer hann aðeins yfir umsögn Kristjáns Leóssonar, sem hann las upp úr áðan í ræðu sinni, sem fjallar um þessa fullnægjandi greiningarvinnu, samanburðarvinnu, kostnaðargreiningar o.fl. Það má segja það dálítið miklar kröfur, ég vil orða það þannig, að leggja út í alla þessa vinnu fyrir eitthvað eins og lagt er til hér, að skipta út þessari stofnun, Nýsköpunarmiðstöð, og setja einkahlutafélag í staðinn, þó að ég sé að sjálfsögðu sammála því að það þurfi fullnægjandi greiningarvinnu. Hvað er þá fullnægjandi greining og þess háttar? Það vantar einmitt greiningarvinnu. Til að byrja með þarf alla vega einhverja greiningarvinnu til að við getum byrjað á að spyrja hvernig rökin fyrir þessari tillögu ganga upp, svo að ég fari nú ekki alla leið í að segja hvað sé fullnægjandi greiningarvinna því að hægt er að fara ansi langt út í þá vegferð áður en fyrstu skrefin eru tekin. Það er hægt að ofhanna í rauninni þau verkefni sem liggja fyrir. Stundum vill maður skipuleggja hvaða leið er verið að fara og taka fyrstu skrefin með nægjanlegri greiningarvinnu svo að ekki sé lagt meira í það. Þá langar mig bara til að spyrja hv. þingmann: Miðað við umsagnir og vinnuna í nefndinni, hvað var talið að væri fullnægjandi greiningarvinna í svona máli?