151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

atvinnuleysi og efnahagsaðgerðir.

[13:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Aðgerðirnar hafa virkað og útlitið er bjart, segir fjármálaráðherra um nýbirta fjármálaáætlun. Samkvæmt henni verða þó 35% fleiri atvinnulausir á árinu eða 5.000 fleiri einstaklingar en ríkisstjórnin gerði ráð fyrir í fjármálaáætluninni sem samþykkt var fyrir jól. Í kynningunni skautar ríkisstjórnin svo algerlega fram hjá því að gert er ráð fyrir 5% atvinnuleysi í lok tímabilsins árið 2023. Það er 50 milljarða kostnaður fyrir ríkissjóð á hverju ári og sá kostnaður mun haldast um ókomna tíð ef ekki verður ráðist að rót vandans, sem er fjöldaatvinnuleysi. Hin ábyrga sýn ríkisstjórnarinnar, sem hún segist standa fyrir, afhjúpast svo algerlega þegar skoðað er til hvaða ráða verður gripið ef svartsýnustu spár ganga eftir og ákveðið skuldahlutfall ekki heldur. Ríkisstjórnin segir að þá verði gripið til afkomubætandi ráðstafana. Á skýrari íslensku heitir það niðurskurður eða skattahækkanir eða hvort tveggja. Það er ekkert sérlega geðsleg pólitísk sýn sem felst í því að sætta sig við áframhaldandi atvinnuleysi en hóta svo með ótilgreindum niðurskurðartillögum í lok tímabilsins til þess eins að ná einhverju sérstöku óskaskuldahlutfalli. Þetta er einfaldlega vegferð sem er dæmd til að mistakast. Þetta er markaðsherferð en ekki góð hagstjórn. Ég spyr: Gerir hæstv. forsætisráðherra sér ekki grein fyrir að grunnvandinn er atvinnuleysi? Í því liggur bæði halli ríkissjóðs en líka erfiðleikar 26.000 manna.

Herra forseti. Við munum aldrei vinna bug á skuldastöðunni fyrr en við náum niður atvinnuleysinu. Skuldastaðan er afleiðing af atvinnuástandinu og það er ótrúlegt að heyra ríkisstjórn státa sig af aðgerðum þegar hér mælist (Forseti hringir.) hæsta atvinnuleysi meðal vestrænna þjóða og ójöfnuður er að aukast. Ég spyr því: Er þetta áætlun um endurreisnina sem hæstv. forsætisráðherra boðar í næstu kosningum?