151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

atvinnuleysi og efnahagsaðgerðir.

[13:13]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í hvaða samhengi spyr hv. þm. Logi Einarsson þessarar spurningar? Það er ár liðið frá því að heimsfaraldur skall á Íslandi með tilheyrandi samfélagslegum og efnahagslegum afleiðingum og ríkisstjórnin hefur frá fyrsta degi beitt sér fyrir aðgerðum til þess að draga úr efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum. Það eru pólitískar ákvarðanir sem til að mynda snúast um að leggja áherslu á að halda skólum opnum, þannig að atvinnulífið gæti haldið áfram að ganga sinn gang eins og mögulegt væri, þannig að ekki félli aukin byrði á konur umfram karla út af heimsfaraldri, pólitískar ákvarðanir sem felast í því að kynna til sögunnar bæði hlutastarfaleið, lokunarstyrki, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki, hækkun atvinnuleysisbóta og svo mætti lengi telja. Aðgerðir sem hafa skilað því að samdrátturinn er minni en áður var spáð. Samdrátturinn er minni. Einkaneysla hefur að einhverju leyti vegið upp á móti þessari erfiðu stöðu og sömuleiðis höfum við beitt okkur fyrir því að fólk geti haldið sínu ráðningarsambandi með hlutastarfaleið og nú með nýjum aðgerðum undir yfirskriftinni Hefjum störf, sem snúast um nákvæmlega þetta, að draga úr langtímaatvinnuleysi. Það er risastórt viðfangsefni í samfélagi okkar. Hv. þingmaður hefur oft gert stöðu atvinnuleitenda að umtalsefni hér og það er nefnilega mjög mikilvægt að við ræðum stöðu þeirra og hvaða úrlausnarefni blasa við þeim sem vilja fara aftur inn á vinnumarkað eftir jafnvel þriggja ára atvinnuleysi. Þess vegna erum við að ráðast í þetta verkefni þar sem opinberum stofnunum, frjálsum félagasamtökum og fyrirtækjum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum, er gert kleift að taka fólk af atvinnuleysisskrá sem hefur verið þar lengur en í 12 mánuði. Það er risastórt verkefni sem mun skipta verulegu máli til að draga úr langtímaatvinnuleysi, koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn því að það er samfélagslegt böl ef hér verður áfram langtímaatvinnuleysi.