151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

atvinnuleysi og efnahagsaðgerðir.

[13:15]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Já, ég hef gert stöðu atvinnuleitenda að umtalsefni hérna og geri það núna vegna þess að þær aðgerðir sem gripið er til eru ekki nógu miklar. Verið er að sætta sig við langtímaatvinnuleysi hér í landi. Í hvaða samhengi spyr ég um þetta? Jú, þetta er nefnilega ekki rétt hjá hæstv. forsætisráðherra, það hefur fallið aukin byrði á t.d. konur. Kreppan bitnar harðast á konum, ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Og þegar hér er metatvinnuleysi, hér er verðbólga umtalsverð, hér er fjórðungur launafólks í vanda við að ná endum saman sem og helmingur allra atvinnulausra, þá eru þær aðgerðir sem boðaðar eru og sú sýn sem birtist í fjármálaáætlun einfaldlega ekki nægileg.

Ég spyr hvort hæstv. forsætisráðherra deili sýn fjármálaráðherra að sjálfbærni í ríkisbúskapnum snúist um tiltekna skuldasögu til skamms tíma en ekki það að ná niður atvinnuleysinu, skapa örugga atvinnu fyrir fólk (Forseti hringir.) og minnka ójöfnuð í þessu landi.