151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

atvinnuleysi og efnahagsaðgerðir.

[13:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Stærsta hættan fyrir okkur sem viljum tryggja jöfnuð í þessu landi — og nú er kannski ekki tímabært að tala um nákvæmlega hvaða áhrif þessi kreppa hefur haft á stöðu hans á Íslandi, við vitum að tekjujöfnuður hér var mestur í Evrópu fyrir heimsfaraldur, svo að við drögum staðreyndirnar fram — mesta hættan sem steðjar að jöfnuði í þessu landi er atvinnuleysi, langtímaatvinnuleysi. Þess vegna snúast aðgerðir ríkisstjórnarinnar nákvæmlega um það að tryggja ráðningarsamband fólks, að tryggja afkomu fólks, að tryggja að við sköpum fleiri störf. Við munum sjá núna aukningu í fjárfestingu ríkisins. Töluvert hefur verið rætt um opinbera fjárfestingu og hlut ríkis og hlut sveitarfélaga í henni þar sem við erum líka að skapa störf. Síðan skiptir að sjálfsögðu máli það sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan spurði um, þ.e. hvernig bólusetningu mun vinda fram þannig að samfélagið geti tekið við sér og atvinnuleysi verði ekki viðvarandi vandamál. Það er mín sýn, svo að það sé algerlega skýrt, að langvarandi atvinnuleysi megi ekki verða í samfélagi okkar.