151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

reglur um vottorð á landamærum.

[13:25]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Stjórnvöld tilkynntu fyrir nokkru að frá og með 1. maí muni Ísland sleppa fólki við sóttkví ef það kemur frá svokölluðu grænu svæði og er með neikvæð PCR-próf. Eftir þrjá daga taka síðan við reglur um að farþegar utan Schengen jafnt sem innan geti framvísað vottorði um bólusetningu og fengið undanþágu frá sóttkví. Það lyftist sannarlega brúnin á ferðaþjónustunni við þessi tíðindi. Einhverjir töluðu jafnvel um að þetta væri eitt það mikilvægasta sem hægt væri að gera fyrir ferðaþjónustuna og efnahagslega viðspyrnu landsins enda stóðu vonir til þess að Bretar og Bandaríkjamenn myndu flykkjast hingað til landsins sem ferðamenn.

Nú berast hins vegar fréttir frá Englandi þess efnis að þarlend stjórnvöld muni sekta hvern þann sem fer í ferðalag án gildrar ástæðu um rúmlega 800.000 kr. eða 5.000 pund. Ég hygg að fáir Englendingar muni leggja í frí fyrir þá upphæð til viðbótar við annan kostnað. Við svona lestur leitar hugurinn óneitanlega að því hvort farið hafi verið í einhverjar greiningar áður en blásið var í lúðra með þessa Schengen-breytingu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort gerð hafi verið tilraun til að meta líkur á ferðalögum þessara tveggja þjóða, sérstaklega á næstu vikum og mánuðum, meta líkur á því að ferðamenn frá þessum löndum kæmu hingað. Ég spyr líka: Hafa stjórnvöld reynt að kasta einhverjum tölum á það eða glöggva sig á því hvort líkur eru á aðrar þjóðir feti í fótspor Englendinga með slíkt bann?

Mig langar líka að spyrja hæstv. atvinnumálaráðherra um hagsmunamatið þegar ákvarðanir um landamærin hafa verið teknar, um þessa opnun. Var farið út í greiningu á því hvaða áhrif mögulegt aukið smit vegna þessarar opnunar hefði á aðrar atvinnugreinar hér á landi? Það skiptir auðvitað miklu máli nú þegar fá smit eru hér á landi og ýmis rekstur gengur býsna vel. Almenningur hefur jafnframt væntingar til þess að með vorinu fari lífið að komast í samt horf. Hefur þetta einhvern veginn verið vegið og metið saman? Hefur verið farið í greiningu á því hvaða áhrif opnun, og þar af leiðandi mögulegt smit vegna ferðaþjónustunnar, hefur á aðra starfsemi og bara almennt á íslenskt samfélag?