151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

reglur um vottorð á landamærum.

[13:29]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég bið hæstv. ráðherra að trúa mér, ég geri ekki ráð fyrir því að ríkisstjórnin hafi áhrif á atburðarás í öðrum löndum. Ég er á mörkunum með að trúa því að hún hafi áhrif á atburðarásina hér, en það er önnur saga.

Ég þakka svörin. Auðvitað er þetta flókið. Auðvitað er mikil óvissa, en það er kannski akkúrat þess vegna sem ég velti upp hugtakinu væntingastjórnun. Við vitum að hér erum við með býsna opið samfélag, m.a. vegna lokunar á landamærum. Nú liggur fyrir að opna á landamærin af því að ríkir hagsmunir eru undir. Ég spyr hvernig þeir hagsmunir hafi verið vegnir og bornir saman við hagsmuni þeirra sem núna lifa og starfa í okkar, þrátt fyrir allt, opna samfélagi hér innan lands. Það skiptir máli, ekki síst ef við tölum út frá efnahagslegum ástæðum. Komið hafa fram upplýsingar um að þrátt fyrir mikinn samdrátt starfa og starfsemi í ferðaþjónustu sé efnahagslegur samdráttur minni en óttast var. Menn leiða að því líkur að það þýði að mögulega sé framleiðni þessarar atvinnugreinar ekki eins mikil og menn höfðu talið. Þetta eru upplýsingar sem hljóta (Forseti hringir.) af hálfu stjórnvalda að vera teknar með þegar vegin og metin eru mismunandi atriði í hinum stóru hagsmunum okkar. (Forseti hringir.) Þannig að aftur langar mig að árétta spurninguna um hvort þetta hafi verið vegið á einhvern hátt saman.