151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

reglur um vottorð á landamærum.

[13:31]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Væntingarnar eru þær að bóluefni sé leiðin út úr ástandinu. Ákvörðunin sem tekin var snýr að því að það lítil hætta stafi af því að taka á móti fólki sem er bólusett eða með mótefni að í raun sé ekki verið að fórna hagsmunum Íslendinga, ekki verið að fórna hagsmunum annarra atvinnugreina og ekki verið að fórna íslenska sumrinu sem fólk sér fyrir sér að verði vonandi bjart og gott. Sóttvarnirnar vega í raun áfram þyngst. Þær gera það og þær gera það áfram með þessari ákvörðun.

Auðvitað væri kannski auðveldasta væntingastjórnunin að segja: Heyrðu, við ætlum bara ekki grípa til neinna ráðstafana fyrr en við erum fullkomlega viss um framhaldið. En ég lít svo á að við viljum einfaldlega vera í meiri baráttuhug en það en vera samt meðvituð um að við þurfum mögulega að breyta um skoðun eða taka aðra ákvörðun. Væntingastjórnunin er að bólusetning sé leiðin út úr þessu og ákvörðunin er í samræmi við það.