151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

sóttvarnir.

[13:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Á ríkisstjórnarfundi í morgun kynnti ég tvenns konar aðgerðir sem eru til þess að þétta varnirnar við landamærin. Annars vegar snúast þær um að öll börn verði tekin í sýnatöku á landamærum, sem ekki hefur verið raunin áður. Við byrjum á því. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir því að fólk sem kemur frá svæðum þar sem veiran er hvað skæðust í Evrópu sé í sóttkví í sóttvarnahúsi eða farsóttarhúsi. Þessar breytingar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og snúast alltaf um það sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. að gæta sérstaklega vel að mögulegum smitum sem koma í gegnum landamæri, og ekki síst vegna þess sem hv. þingmaður nefnir, að við höfum ástæðu til að ætla að þar séu frekar á ferðinni þessi skæðari, stökkbreyttu afbrigði. Nefnd eru afbrigði sem kennd eru við Bretland og líka sem kennd eru við Brasilíu, sem eru sannarlega skæðari, breiðast hraðar út og breiðast frekar út frá börnum. Börn smitast frekar og ungt fólk smitast frekar. Það er líka áhyggjuefni.

Sóttvarnalæknir hefur raunar líka lagt til, sem við eigum eftir að fjalla um og ég hef ekki enn þá tekið afstöðu til, að allir verði prófaðir einu sinni á landamærum, líka þau sem eru með einhvers lags vottorð, hvort sem það eru vottorð um bólusetningar, vottorð um mótefni eða fyrri Covid-smit, til að fullvissa okkur um að ekki sé um að ræða að veiran berist mögulega inn þrátt fyrir þau vottorð sem um ræðir. Það er að gefnu tilefni og sóttvarnalæknir leggur mjög mikla áherslu á þessar aðgerðir. Ég held að miklu máli skipti að ráðist sé allar aðgerðir að yfirlögðu ráði.