151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessum málaflokki sem hefur verið meðal þeirra áherslumála sem verið hafa á mínu borði alla mína tíð sem heilbrigðisráðherra. Vil ég þá nefna til að mynda sérstök skref sem tekin hafa verið til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og hafa verið sérstaklega miðuð við aldraða sem nú greiða ekkert fyrir það að koma í heilsugæsluna, og greiðsluþátttaka ríkisins í tannlækningum hefur verið stóraukin.

Af því að hér er spurt um stefnumótun og greiningu, sérstakra stefnumótun sem lýtur að fólki með heilabilun, vil ég nefna að þar erum við með aðgerðaáætlun sem þegar er komin til framkvæmda. Ég vil nefna sérstaklega stefnumótun sem lýtur að heilsueflingu aldraðra sem miðar við það að leggja aukna áherslu á heilsueflingu og heilsurækt almennt, bæði sem forvörn en ekki síður til að auka lífsgæði aldraðra eftir því sem á ævina líður.

Mín sýn á málaflokkinn, af því að hér er sérstaklega spurt um það, er sú að við þurfum að leggja stóraukna áherslu á heilsueflingu og forvarnir. En við þurfum líka að leggja stóraukna áherslu á möguleika aldraðra til að búa heima. Þar kemur til aukin áhersla á heimahjúkrun og margs konar heimaþjónustu, sveigjanlega dagdvöl, dagdvöl sem er sérhæfð fyrir hópa sem glíma við tiltekna sjúkdóma og síðan mannsæmandi hjúkrunarrými þegar þar að kemur.

Heilbrigðisþing, sem boðað er nú síðar á þessu ári, sem verður það síðasta í bili hjá mér sem heilbrigðisráðherra, a.m.k. á þessu kjörtímabili, er tileinkað heilbrigðisþjónustu við aldraða og þessum málaflokki sérstaklega. Ég vona að ég komist betur að öðrum svörum í mínu síðara svari. En þetta er afar mikið áherslumál og skiptir mjög miklu máli að þar sé byggt á öflugri stefnumótun og greiningu.