151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:44]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svörin. Það er greinilega af nógu að taka og ég vonast til þess að fá enn frekari svör hér á eftir. En ég ítreka: Er ekki tími til að staldra við, fara í samvinnu um aðilaskiptin með hjúkrunarheimilin frá sveitarfélögunum til ríkisins? Þótt það þýddi tímabundinn útgjaldaauka hjá ríkinu er næsta víst að vönduð vinna við yfirfærsluna drægi úr heildarkostnaði. Verkefnið snýst um þjónustu við íbúa hjúkrunarheimila, þjónustu í hverju samfélagi og ráðstöfun og nýtingu opinbers fjár. Í þessum verkefnum er starfsfólk hjúkrunarheimila í lykilhlutverki. Því snýst vönduð yfirfærsla að miklu leyti um hvernig til tekst með samfellu í starfsmannahaldi. Í því ljósi álít ég yfirlýsingu velferðarnefndar frá 16. mars afar mikilvæga þar sem m.a. er hvatt til þess að horft verði til þeirra lagareglna sem finna má í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. (Forseti hringir.) Mörg dæmi eru um að sú leið hafi verið farin.