151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

rekstur hjúkrunarheimila.

[13:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Unnið er að farsælli yfirfærslu á þessari starfsemi núna og þar eru hagsmunir íbúa og starfsfólks í fyrirrúmi. Ég vil fullvissa hv. þingmann um það. Þingmaðurinn spurði líka um skýrslu sem kennd hefur verið við Gylfa Magnússon. Ég geri ráð fyrir að við munum ná að halda skilafund síðar í þessum mánuði, vonandi fyrir páska.

Ég vil líka segja það hér, af því að við erum að tala um þennan stóra og mikilvæga málaflokk sem verið hefur á höndum bæði ríkis og sveitarfélaga, og mismunandi þætti að því er varðar þjónustu við þennan hóp, að þegar við tölum um að styrkja og efla þjónustunetið kringum eldra fólk er grundvallaratriðið að styrkja stöðu sveitarfélaganna. Það er gríðarlega mikilvægt að sveitarfélögin ráði mjög vel við að sinna þeirri nærþjónustu sem þjónusta við aldraða er. Heilbrigðisþjónusta hefur verið á borði heilbrigðisyfirvalda, en ég minni hv. þingmann á að á sínum tíma var talað um að eftir að við værum búin að flytja grunnskólana (Forseti hringir.) og málefni fatlaðra væru málefni aldraðra næst í röðinni. En í millitíðinni þurfum við að sameina sveitarfélög og styrkja þau.