151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni kærlega fyrir þetta. Já, þetta er góð spurning. Ég held að það sé alveg rétt að við erum alltaf að leita að leiðum til að búa til eitthvert umhverfi, skulum við kalla það, kerfi þar sem hægt er að leita meira og minna í einhverjum skilningi á einn stað til að fá þjónustu, úrlausn eða aðstoð og það er, held ég, skynsamlegt. Við höfum auðvitað, eins og hv. þingmaður minntist á, byggt upp alls konar hluti því að við erum dálítið reddarasamfélag. Ef einhver kvartar eða fær góða hugmynd þá er henni hrundið í framkvæmd, kannski án þess að horfa á heildarmyndina. Við erum auðvitað með alls konar kerfi og stofnanir og fyrirbæri sem hafa það hlutverk. Við erum með landshlutaáætlanir, við erum með atvinnuþróunarfélög, Nýsköpunarmiðstöð, við erum að setja hér upp alls konar tæknigarða og vísindagarða. Við erum að samþykkja klasastefnu og við erum með alls konar góð áform og sumt af því sýnist manni skarast mjög mikið. Ég ætla ekki að vera með neina palladóma um að þetta sé endilega allt ómögulegt en það læðist að manni sá grunur að það mætti gera betur.

En til að svara spurningu hv. þingmanns þá held ég að það sé alltaf skynsamlegt að leita ráða hjá þeim sem veita þjónustuna og eiga að njóta þjónustunnar áður en ákvarðanir eru teknar.