151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar aðeins að velta því upp með hv. þingmanni hvort við séum í nokkrum ólíkum málum farin að sjá teiknast upp hina raunverulegu nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Hér var fyrir nokkru kynnt eitthvað sem heitir nýsköpunarstefna, sem er kannski á mörkunum að hægt sé að kalla raunverulega nýsköpunarstefnu. En það sem við höfum hins vegar upplifað síðasta árið — og það þekkir hv. þingmaður manna best sem flutningsmaður ótal tillagna að því að veita meira fé beint inn í grunnrannsóknir og nýsköpun á síðustu mánuðum sem viðbrögð við Covid, sem hluta af viðspyrnunni eftir Covid — er að bætt hefur verið í þessa sjóði og líka í grunnrannsóknir, en það hefði verið svo auðvelt að bæta miklu meira við og það hefði skilað árangri. Við hefðum ekki verið að henda pening út í tómið. Það hefði skilað beinum grjóthörðum árangri í nýjum og spennandi verkefnum sem myndu byggja undir efnahaginn á næstu árum.

Tökum annað dæmi. Nú stendur til að koma með frumvarp til þingsins þar sem Vísinda- og tækniráði verður breytt í Vísinda- og nýsköpunarráð. En á sama tíma á að breyta samsetningu ráðsins þannig að klippt verður á tengslin sem gera Vísinda- og tækniráð jafn öflugt og raun ber vitni, t.d. tengslin við fræðasamfélagið. Yfir Vísinda- og nýsköpunarráði svokölluðu á að gína ráðherranefnd, ekki fjölbreyttur hópur heldur bara hópur fólks sem situr á ríkisstjórnarfundum saman tvisvar í viku. Það á allt í einu að hittast undir einhverjum öðrum formerkjum og vera hinn frjói jarðvegur nýsköpunar í samfélaginu. Ég velti því fyrir mér hvort við stöndum frammi fyrir þeirri heildarmynd, sem ríkisstjórnin er að teikna upp núna, að nýsköpun sé kannski (Forseti hringir.) stikkorð frekar en raunveruleg stefna með inntak sem birtist líka í því að þetta frumvarp (Forseti hringir.) heitir frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun en er allt annað en það.