151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Já, stikkorð — ég held að við ættum í öllu falli að varast það mjög að líta á nýsköpun, tækni og vísindi án þess að hafa í huga að þetta er margþætt og breitt mál. Ég held að við þurfum að varast það mjög að líta á þetta sem falleg orð sem við notum á hátíðarstundu og tölum svolítið hátimbrað um en gleymum að huga að hinum praktíska veruleika starfseminnar sem skiptir auðvitað öllu máli. Það sem stjórnvöld eiga fyrst og fremst að gera, að því er ég tel, er að reyna að skapa ramma, að setja sér þau markmið að verja fjármunum í verkefnið og að búa þannig um hnútana að það hvetji aðra til að setja fjármuni í þessi verkefni.

Án þess að ég hafi kynnt mér fyrirhugaðar breytingar sem hv. þingmaður nefndi þá er tvennt í því. Það er auðvitað mjög mikilvægt að stjórnvöld sýni það í verki og setji þunga í mál með því að hafa af þeim afskipti, með aðkomu ráðherra. En ég held að þrír ráðherrar, eða hvað þeir kunna að verða margir, sem einhvers konar yfirstjórar þess sem best er í framþróun á þessum sviðum sé kannski ekki endilega það heppilegasta eða skynsamlegasta í stöðunni. (Forseti hringir.) Ég ætla að láta nægja að orða það ekki sterkar en þetta.