151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:21]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Smára McCarthy að það sé vægast sagt undarlegt að stjórnarliðar leggi ekki í að standa hér í sal og verja þetta mál. Það er ekki bara þetta frumvarp sem er ólíðandi heldur aðdragandinn að því. Það er ólíðandi framkoma gagnvart öllu því fólki sem starfar innan Nýsköpunarmiðstöðvar og öllu því fólki sem reiðir sig á þjónustu hennar að tefla fram þeirri tilkynningu í janúar á síðasta ári að stofnunin yrði lögð niður og svo leið og beið og leið og aldrei kom í ljós hvað ætti að gera, hvernig ætti að standa vörð um innviði nýsköpunar einmitt árið þar sem nýsköpun er leiðin fram á við, einmitt árið þar sem þarf að setja áherslu á þennan málaflokk til að koma samfélaginu út úr efnahagsáfallinu í kjölfar Covid. Ég skil svo sem vel að fólk vilji ekki standa í þessum sal vegna þess að frumvarpið er handónýtt. Frumvarpið sýnir (Forseti hringir.) að þetta hefur ekkert verið hugsað. Það hefur ekkert verið hugsað (Forseti hringir.) til enda hvernig eigi að styrkja nýsköpun á landinu. (Forseti hringir.) En fólk þarf að standa fyrir svörum gagnvart lélegum ákvörðunum líka, ekki bara þeim góðu hér í sal.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk.)