151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:40]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Kannski bara til að bæta í umræðu um Evrópusjóðina þá eru þeir styrkir sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir vísaði til fyrst og fremst svokallaðir Horizon-styrkir, þ.e. almennur rannsóknar- og þróunarstyrktarsjóður Evrópusambandsins sem Ísland hefur aðgang að að hluta. Það eru ekki miklar takmarkanir þar en þær eru einhverjar. En það er fullt af öðrum sjóðum sem við höfum ekki aðgang að, t.d. sjávarútvegs- og úthafsrannsóknarsjóður Evrópusambandsins. Mig grunar að hann gæti mögulega gert eitthvert gagn hér. Það eru líka ýmiss konar innviðaþróunarsjóðir og annað sem gætu nýst hér, þannig að ekki er hægt að hafa of mörg orð um hvað alþjóðasamvinna getur skilað miklu.

En varðandi spurningu hv. þingmanns um stefnu Pírata í þessum efnum og hvernig við myndum reyna að nálgast það þá höfum við verið að tala fyrir því allt þetta kjörtímabil, og í rauninni alveg frá því að flokkurinn var stofnaður, að styrkja stoðir nýsköpunar, sem þýðir að hluta til að tryggja meira fjármagn, fleiri úthlutunardaga, fleiri úthlutanir úr sjóðum sem eru að virka, en líka að búa til öflugt stuðningsnet við þau fyrirtæki sem koma inn og passa upp á alla keðjuna, frá tækniþróunarstigi eitt þar sem kemur inn ný hugmynd og alveg upp í tækniþróunarstig níu þar sem verið er að koma hlutum til neytenda. Að þessu marki mætti auðvitað nefna stafrænar smiðjur, FabLabs, en ég átti smáþátt í að koma fyrstu slíku smiðjunni til Íslands og aðrir hv. þingmenn hafa unnið með beinum eða óbeinum hætti að þeim. En þetta er akkúrat glæsilegt dæmi um hvað það getur skilað miklum árangri að færa tækin til nýsköpunar í hendur almennings ef við stöndum rétt að því. Svo er auðvitað erfitt að dæma fyrr en eftir á.