151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

opinber stuðningur við nýsköpun.

322. mál
[15:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma hérna upp og taka undir með tveimur hv. þingmönnum sem tóku til máls um fundarstjórn forseta, ég sakna stjórnarmeirihlutans í þessari umræðu. Það hefur ekki einn einasti þingmaður stjórnarmeirihlutans, utan framsögumanns meirihlutaálitsins, tekið til máls um þetta efni og er þó af nógu að taka. Hér á eftir mun ég flytja mína þriðju ræðu um efnið sem ég vona að dugi til að koma því að sem ég hef að segja um þetta mál, og er ég þó bara einn þingmaður. Hér hafa þingmenn fjallað um ýmis nýsköpunarmál. Það er ýmislegt að ræða, sér í lagi með hliðsjón af því hversu illa undirbúið frumvarpið var í upphafi og þrátt fyrir ágætar tilraunir meiri hlutans til að bæta úr einhverjum vanköntum frumvarpsins. Ég held að það færi betur á því ef hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans myndu taka þátt í þessari umræðu, ýmist til að verja frumvarpið, því að það gæti orðið áhugaverð umræða, eða jafnvel til að leggja (Forseti hringir.) til einhverjar hugmyndir, því að þetta málefni skiptir verulegu máli, sérstaklega á þessum tímum (Forseti hringir.) í heimsfaraldri Covid-19 og vegna efnahagslegra afleiðinga hans.